föstudagur, 9. júní 2006

Það er ekki hægt að segja að fatakaup

séu í uppáhaldi hjá mér. Líkist ég ekki dæmigerðum kvenmanni hvað það snertir. Eða hvað? Er það ekki bara goðsögn að konum finnist gaman að versla föt? Þegar ég velti því fyrir mér þá þekki ég mun fleiri konur sem finnst það leiðinlegt heldur en hitt. Og ef ég velti málinu enn meira fyrir mér þá flækist það ögn, því mér finnst miklu skemmtilegra að kaupa mér föt þegar ég er á ferðalagi, heldur en heima hjá mér. En núna er ég að fara út að borða í kvöld á Friðriki V. með kvennaklúbbnum mínum til að kveðja eina okkar sem er að flytja suður. Og þar sem sumarleg spariföt eru af skornum skammti í fataskápnum mínum (og spariföt yfirhöfuð) þá neyddist ég til að fara á stúfana og leita að fötum í mínum heimabæ.

Um daginn rakst ég reyndar óvænt á pils sem mér fannst flott og keypti það (Valur fór að kaupa í matinn í Hrísalundi og ég skrapp niður í kjallarann á meðan til að skoða...). Eini gallinn var sá að ég átti enga flík til að vera í að ofan og á meðan þannig var ástatt var notagildi pilsins frekar takmarkað. Því fór ég í leiðangur í morgun í þeim erindagjörðum að leita mér að blússu eða bol sem passar við pilsið. Byrjaði í búðinni þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla og kom þaðan út með gallabuxur og bol á yngri soninn en ekkert á sjálfa mig. Var búin að þræða allar búðirnar í miðbænum í gær í sömu erindagjörðum, nema eina, og í hana fór ég í dag. Þar fann ég stutterma blússu sem er voða sæt en það þyrfti helst próf í verkfræði til að geta komist í hana. Tókst það engu að síður og eftir þónokkrar tilfæringar tókst mér að hagræða henni þannig að hún sat nokkurn veginn rétt á skrokknum á mér. Ég var búin að máta þrennar aðrar sem ekki gengu upp, þannig að ég ákvað að taka þessa þrátt fyrir hennar vankanta. Þannig að þá er ég klár í slaginn í kvöld og er það mikill léttir. Vona bara að blússan og pilisið passi saman ;-)

Engin ummæli: