fimmtudagur, 22. júní 2006

Afrekaði að hringja í Leiðbeiningastöð heimilanna

(áður Leiðbeiningastöð húsmæðra ef mig misminnir ekki) í dag, í annað skipti á ævinni. Man ekki hvers vegna ég hringdi þangað í fyrsta sinnið enda um 20 ár síðan - í dag var það til að fá ráð við vondri lykt úr fötum. Það kemur alltaf svo vond lykt úr bómullarbolum og leikfimisfatnaði sem má ekki þvo við hærri hita en 40 gráður. Einhvern tímann hef ég meira að segja hent flíkum sem voru heilar að öðru leyti en því að þær lyktuðu eins og þær hefðu verið dregnar upp úr niðurfallsröri. En þegar eiginmaðurinn fór að kvarta undan því að ekki væri lengur hægt að vera í rúmlega ársgömlum íþróttabol þá rifjaðist það allt í einu upp fyrir mér að hafa heyrt um lausn á þessu vandamáli. Hringdi í Leiðbeiningastöð heimilanna og einhver ágæt kona var svo væn að svara mér þrátt fyrir að hún segði að í raun væri lokað hjá þeim. Konan lét mig hafa nafnið á efni sem fæst í apótekunum og ég fór beinustu leið og keypti það. Lagði svo heilan helling af bolum í bleyti í efninu í klukkutíma og þvoði síðan eins og venjulega. Var að hengja þvottinn upp áðan og þrátt fyrir að hnusa sem mest ég mátti af þvottinum fann ég bara enga vonda lykt! Þetta lofar sem sagt góðu en endanlegt "test" verður ekki fyrr en farið er að ganga í fötunum. Ég skal láta ykkur vita...

Engin ummæli: