mánudagur, 1. maí 2006

Við Valur

fórum út í Kjarnaskóg að ganga í morgun þegar við vöknuðum. Þar fer ekki fram hjá nokkrum manni að vorið/sumarið er komið. Farfuglarnir eru mættir í skóginn og syngja sinn söng fyrir hvern sem heyra vill. Stoltur þröstur hreykir sér á hæsta toppi furutrés og kallast á við félaga sinn í næsta tré. Hrossagaukurinn svífur um loftið og lætur í sér heyra og það gerir líka rjúpan sem er enn í skóginum. Snjórinn er farinn að mestu leyti og hvítu dílarnir uppi í klettabeltinu eru ekki snjór heldur fuglar í hreiðurgerð. Í sambland við fuglahljóð og lækjarnið má svo greina dillandi barnshlátur sem berst frá leiksvæðinu. Já, þetta er indælt líf!

Hin illræmdu samræmdu próf hefjast á miðvikudaginn en unglingurinn á heimilinu var svo óheppinn að krækja sér í kvefpesti og hefur ekkert getað lært. Það er reyndar önnur saga hvort hann hefði yfirhöfuð notað tímann til að læra (hefur komist upp með að læra lítið og ná samt ágætum einkunnum og það hvetur kannski ekki beint til þess að eyða "óþarfa" tíma í lestur). En vonandi nær hann sér á strik og kemst í prófin og þarf ekki að fara í sjúkrapróf.

Stóra systir hans er líka að byrja í prófum í vikunni og hefur lítið sést hér að undanförnu en setið heima yfir námsbókunum. Hún sem sagt lærir fyrir próf ;-)

Sá yngsti er í þessum töluðu (skrifuðu) orðum að verða ræstur af stað í 1. maí hlaupinu sem hefur verið haldið á þessum degi í mörg ár, en þetta er í fyrsta sinn sem hann tekur þátt. Pabbi hans fylgdi honum í hlaupið.

Og ég, ég á að vera að gera eitthvað allt annað en blogga, svo nú er best að hætta þessu.

Engin ummæli: