fimmtudagur, 25. maí 2006

Leiðindi...

Ég hef bæði verð leiðinleg kona í dag og svo hefur mér líka leiðst. Eftir að hafa haltrað um allt í tvo daga og haldið áfram því sem ég þurfti að gera s.s. fara yfir próf og koma frá mér einkunnum, var fóturinn á mér alveg búinn að fá nóg seinnipartinn í gær. Ég var með stanslausa verki í hnénu, sama hvernig ég hagræddi mér, og það fór að síast inn í höfuðið á mér að framundan væru erfiðir dagar. Ég yrði að slappa af og hvíla hnéð ef mér ætti að batna. Vaknaði upp í morgun og vorkenndi sjálfri mér óskaplega. Ekki gat ég farið í sund og ekki gat ég farið út að ganga. Valur benti mér á að ég gæti glaðst yfir því að hafa ekki verið á leiðinni í gönguferð útlöndum eða eitthvað álíka sem ég hefði þurft að sleppa. Það dugði mér þó ekki lengi. Ég hélt áfram að vorkenna mér - og mikið óskaplega sem sjálfsvorkunn er ömurleg tilfinning. Mæli ekki með henni, gerir örugglega engum gott.

Það eru uppi kenningar um það að maður hafi sjálfur möguleikann til að stjórna sínum hugsunum, t.d. ef ég hugsa neikvæðar hugsanir og tek eftir því þá á ég að hugsa jákvætt og sigrast þannig á neikvæðninni. Og í sama anda, að allt sem kemur fyrir mann gerist af einhverri ástæðu og maður hafi tækifæri til að gera gott úr reynslunni í stað þess að verða miður sín og komast ekki upp úr vonleysinu. Einhverra hluta vegna er svo miklu auðveldara að trúa þessum kenningum þegar allt er í lagi hjá manni. Auðvelt að trúa því að maður geti barist við neikvæðar hugsanir þegar maður er í góðu skapi og þegar maður er frískur er auðveldara að trúa því að hnéskel sem fer úr liði geti fært manni eitthvað gott. Mér er sem sagt ekki alveg að takast það að vera jákvæð núna... en það kemur að því ;-)

Engin ummæli: