sunnudagur, 14. maí 2006

Einhver bloggþreyta

er í mér þessa dagana. Finnst ég hálf andlaus eitthvað og ekki hafa frá neinu að segja. Veit svo sem af reynslunni að líklega er þetta bara tímabil sem gengur yfir. Eina spurningin er hvort maður á að sleppa því að blogga þegar svona er ástatt - eða blogga og drepa alla úr leiðindum sem álpast inn á þessa síðu?

Viðskiptadeildin bauð öllu starfsfólki sínu í mat á föstudagskvöldið. Ég ætla ekki að segja hvar við borðuðum - en maturinn var nánast óætur! Til dæmis voru rækjur í köldu salati seigar eins og skósólar, soðnu kartöflunum hafði verið velt upp úr einhverri piparblöndu og voru hrikalega bragðvondar, brúna sósan með lambakjötinu var nánast svört á litinn og með einhverju villibragði sem passaði alls ekki við kjötið, brokkólíið og gulræturnar höfðu verið soðnar í hálftíma minnst og það var búið að krydda grænmetið með einhverju kryddi sem ég kann engin skil á og bragðaðist ekki vel. Ég læt hér staðar numið í þessari upptalningu en ef ég hefði átt að borga sjálf fyrir matinn þá hefði ég ekki verið glöð. Félagsskapurinn hjálpaði mikið upp á vondan mat og þetta varð hið ánægjulegasta kvöld.

Svo buðum við Valur börnum og tengdasyni út að borða á Greifanum á laugardagskvöldinu og það var bara mjög gaman líka. Sem betur fer hafði ég pantað borð eftir ábendingu frá Hrefnu en það var alveg stappfullt þarna inni strax klukkan sex.

Læt þessum andlausa pistli lokið, á morgun byrjar prófayfirferð og er ég strax farin að hlakka til, eða þannig, þetta eru "bara" um 80 próf....

Engin ummæli: