miðvikudagur, 10. maí 2006

Var ótrúlega utanvið mig í morgun

Gleymdi nestinu mínu heima, læsti sundgleraugun mín inni í skápnum í búningsklefanum og fór í sundbolinn öfugan (tók reyndar eftir því og snéri honum við áður en ég fór ofan í laugina). Sem minnir mig á það þegar við Valur fórum einu sinni í hjónaferð austur á land. Fyrsta stopp var í Mývatnssveit og þar fórum við í sund. Það var sól úti og eftir að hafa dólað í heita pottinum um stund skelltum við okkur í sólbað þar við hliðina. Þá kom eldri kona og gekk rösklega í átt að heita pottinum. Hún bar höfuðið hátt og var greinilega í góðu skapi. Fólki varð ansi starsýnt á þá gömlu en flestir litu þó fljótt undan og virtust ekki alveg vita hvernig þeir áttu að haga sér. Ástæðan? Jú, blessuð konan hafði gleymt að fara í sundbolinn! Hún áttaði sig á því hvers kyns var þegar hún var að fara ofan í pottinn og snérist þá snögglega á hæli og hljóp við fót inn aftur. Ég reiknaði ekki með því að sjá hana aftur, ef þetta hefði komið fyrir mig hefði ég pottþétt látið mig hverfa, en hún birtist að vörmu spori (í sundbol í þetta skiptið) og lét þetta litla óhapp ekkert á sig fá. Gott hjá henni!

Engin ummæli: