fimmtudagur, 18. maí 2006

Varúð - montblogg!

Eldri sonurinn afrekaði það um daginn að fá fern verðlaun á uppskeruhátíð vetrarins í handboltanum (eins og Halur var reyndar áður búinn að segja frá á sínu bloggi). Hann fékk verðlaun fyrir mestu framfarir í 4. flokki karla, mestu framfarir á eldra ári í flokknum, var í þriðja sæti sem besti leikmaður og síðast en ekki síst var hann kosinn besti félaginn af hinum leikmönnunum. Þetta er frábær árangur og virkilega ánægjulegt því hann var jú að hugsa um að hætta að æfa handbolta s.l. haust.

Svo hringdi dóttirin í mig í morgun kl. átta til að leyfa mér að heyra að hún væri komin með þrjár einkunnir af fjórum í skólanum. Hafði fengið 9,5 í tveimur fögum og 9.0 í einu. Það hlakkaði vel í henni því mamma hennar hafði verið farin að hafa áhyggjur af dömunni sem mætti illa í skólann og nennti lítið að læra heima. Eitthvað hafði mamman meira að segja verið farin að minnast á að fólk sem aldrei lærði gæti fallið. En þessi börn mín virðast vera mun betur gefin en ég, ég þarf nefnilega að læra til að fá hátt á prófum...

Og þar sem ég er að hrósa börnunum þá get ég ekki skilið yngri soninn útundan. Honum gengur líka vel í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur, sama hvort það er skólanám, íþróttir eða skák.

Það er sem sagt virkilega ástæða til að gleðjast og vera ánægð fyrir þeirra hönd. Því hvað vill maður meira í lífinu en að börnunum manns gangi vel?

Engin ummæli: