þriðjudagur, 3. maí 2005

Verð að segja

að þrátt fyrir að ég velti því stundum fyrir mér af hverju í ósköpunum ég er að halda úti bloggsíðu (NB! ekkert einhlítt svar við því) og eigi stundum við blogg-ritstíflu að eiga, þá finnst mér þessi bloggmenning afskaplega skemmtilegt fyrirbrigði. Fyrir utan þann kost að geta tjáð sig um lífið og tilveruna og fengið viðbrögð þegar það á við, þá kynnist maður mörgu nýju fólki og fær innsýn í þeirra líf og tilveru.

Og nú er ég loksins komin að aðalatriðinu; þegar einhver bloggari hættir skyndilega að blogga, hverfur sá hinn sami úr bloggheimum og allt í einu - ekkert meir! Ekki aðeins er þetta svipað því að horfa á spennandi bíómynd þegar einhver slekkur skyndilega á sjónvarpinu - heldur saknar maður viðkomandi manneskju, sérstaklega ef hún hafði einhverja þá kosti til að bera sem urðu til þess að maður heimsótti síðuna hennar daglega til að sjá hvort nú væri komin ný bloggfærsla.

Tilefni þessa pistils míns er það að Gulla hefur tekið sér hlé frá bloggskrifum í bili og ég sakna þess að geta ekki kíkt við hjá henni og séð t.d. hvort hún er búin að taka einverjar nýjar myndir eða hvernig hún er af vefjagigtinni. Ég get bara vonað að þetta hlé verð sem styst svo við fáum sem fyrst aftur að njóta samvistanna við Gullu ;-)

Engin ummæli: