fimmtudagur, 19. maí 2005

Arrrg!

Á að vera að fara yfir próf (fór alla vega að heiman undir því yfirskini) en á alveg einstaklega erfitt með að einbeita mér. Er alein í húsinu - sennilega eru allir aðrir heima hjá sér að horfa á forkeppni Evróvisjón - svo ekki er hávaði eða umgangur að trufla mig.

Venju samkvæmt fór ég í sund í morgun og heyrði þá á tal nokkurra unglingsstráka að sunnan sem voru að tala saman. Einn þeirra var að spá í það hvar "mollið" í bænum væri því þangað hafði hann hugsað sér að fara eftir sundið og var að reyna að drífa félaga sína uppúr lauginni til að fara í mollið. Þar sem klukkan var bara hálf níu gat ég ekki orða bundist og sagði þeim að það opnaði nú ekki fyrr en klukkan tíu á Glerártorgi. Þar sem ég hafði gefið færi á mér með þessari athugasemd brugðust þeir eldsnöggt við og spurði hvort ég væri héðan, jú ekki gat ég neitað því. Kom þá að bragði "Hvernig segirðu mjólk?" og átti nú aldeilis að hlægja að norðlenska framburðinum. Ég var nú ekki alveg tilbúin til að taka þátt í þeim leik, minnug þess þegar ég var krakki og frændi minn að sunnan var í heimsókn en þá upphófust miklar deilur um það hvort "tungumálið" væri réttara, norðlenska eða sunnlenska. Strákarnir svöruðu þá spurningunni sjálfir og sögðu mjólK nokkrum sinnum, svona til að sýna mér að þeir gætu nú alveg spjarað sig hér norðanlands. Í framhaldinu komu miklar pælingar um það að þeir þyrftu nú eiginlega að hafa "manual" til að geta átt samskipti við heimamenn á þeirra eigin tungumáli. Ég gaf nú lítið fyrir það og sagðist halda að þetta væri nú ekki svo voðalegt, fólk myndi örugglega skilja þá. En það var gaman að byrja daginn á þessu spjalli og enn meira gaman að sjá að ennþá höfum við norðlendingar einhver sérkenni í augum höfuðborgarbúa ;-)

Engin ummæli: