fimmtudagur, 26. maí 2005

Fyrir dyrum stendur ferðalag

á morgun með Ferðamálasetri og Rannsóknarstofnun Háskólans, en þessir tveir vinnustaðir deila "rými" í nýja rannsóknarhúsinu að Borgum. Verður farið á Siglufjörð þar sem Síldarminjasafnið verður skoðað og svo á Hofsós þar sem stendur til að skoða Vesturfarasetrið og borða kvöldmat. Fyrst ætlaði ég varla að nenna með - en sá svo að mér, því þetta er auðvitað upplagt tækifæri til að kynnast fólkinu sem ég verð að vinna með í sumar.

Annars hringdi mamma í mig í kvöld og kom varla upp orði fyrir hæsi (Anna mín, ég veit að þú lest þetta, það var orðið of áliðið til að hringja til Noregs ;-). Ég spurði hana hvort hún væri búin að vera veik (sérhver sæmilega heilvita manneskja hefði nú getað sagt sér það sjálf!) og fékk þá að heyra að hún var búin að vera alveg fárveik, með yfir 40 stiga hita og skjálfta þegar verst var, og hafði Ásgrími ekkert litist á blikuna. Hann hringdi á lækni sem kom og úrskurðaði að hún væri líklega með einhverja sýkingu og setti hana á sýklalyf. Nú er bara að vona að henni batni fljótt, það er ekkert grín að verða svona veik komin á þennan aldur.

Jæja, ég er farin að sofa (geisp).

Engin ummæli: