Núna nýverið rakst ég á blogg ungrar konu í Amsterdam, sem ætlar að lifa eins og „hellisbúi“ í 100 daga. Ég set gæsalappir á hellisbúi, því hún ætlar reyndar ekki að búa í helli, heldur í íbúðinni sinni. En hún hefur sett sér ýmsar reglur í sambandi við þessa tilraun sína og sumar hverjar gera það að verkum að hún lítur ekki út fyrir að vera eins og fólk er flest, samanber það að ganga berfætt á götum borgarinnar.
Ástæða þess að hún ákvað að gera þessa tilraun er dálítið sérstök. Hún hafði þjáðst af þunglyndi en læknaðist með því að fylgja 8 vikna prógrammi sem kynnt er í bókinni The mindful way through depression. (Hér er sýnishorn úr bókinni á pdf formi). Í kjölfarið ákvað hún að hugsa betur um sjálfa sig, hætta að gera hluti sem henni fyndust ekki sérlega skemmtilegir, og gera meira af því sem hún hefði gaman af að gera. Einhvern daginn var hún að ganga úti í skógi og fékk þá hugmynd að gaman væri að lifa eins og hellisbúi. Það hlyti að vera heilsusamlegt og úr því þetta var eitthvað sem hana langaði að gera, þá ákvað hún að framkvæma það.
Hún bjó sér til ákveðnar reglur og hér eru dæmi um nokkrar þeirra:
- Borða kjöt, fisk, egg, grænmeti, ávexti og hnetur. Helst lífrænt hráefni eins og kostur er. Borða hráan mat eins og hægt er.
- Borða alltaf þegar hún er svöng.
- Ekki drekka aðra drykki en vatn.
- Ganga berfætt 90% tímans.
- Ganga a.m.k. 9 kílómetra á dag (fara allt gangandi innan Amsterdam, en má nota hjól eða lest til að heimsækja vini og ættingja sem búa lengra í burtu).
- Sofa þegar það er dimmt úti. Vaka þegar bjart er.
- Vera utandyra í a.m.k. 4 klst. á dag.
- Ekki nota úr/klukku.
- Má nota þvottavél, fartölvu (max 3 klt. daglega) og síma.
- Engar snyrtivörur, ekki sjampó, svitalyktareyði og tannkrem.
- Má vera í venjulegum fatnaði.
- Reyna að lifa í núinu.
Frekar skrautlegt ha?
Það er hægt að fylgjast með framgangi mála hjá „Wilmu“ (ekki hennar raunverulega nafn, heldur tilvísun í Wilmu eiginkonu Fred Flintstones (teiknimyndaþættir í sjónvarpinu þegar ég var krakki) á vefsíðunni sem hún bjó til í tengslum við þetta verkefni sitt. Þar setur hún inn myndbönd á ensku þar sem hún segir frá því hvernig gengur. Hún er reyndar frekar döpur í nýjasta myndbandinu, aðallega vegna þess að henni gengur illa að sætta sig við alla athyglina sem hún fær þegar hún gengur berfætt um götur borgarinnar.
En já, það er ýmislegt sem fólki dettur í hug :-)
1 ummæli:
Þetta er málið, gera e-ð öðruvísi, fínt blogg
HH
Skrifa ummæli