miðvikudagur, 8. maí 2013

Ýmislegt framundan


Já ég er víst 25 ára stúdent um þessar mundir ... ótrúlegt en satt ;-) Ég hef mætt á öll afmælin, kom meira að segja heim frá Noregi þegar við bjuggum þar, til að halda uppá 5 ára stúdentsafmælið. Þetta er mjög skemmtilegur hópur og ég hlakka til að hitta þau, en ætla samt að sleppa óvissuferðinni á laugardaginn, svo ég klári ekki alla orkuna fyrir kvöldið.

Þetta er reyndar full dagskrá, fyrst á að hittast á Icelandair hotel á föstudeginum (hm ég var fyrst núna að fatta að ég á að vera að vinna þá ...) og bekkjarpartý um kvöldið þar sem hver bekkur fyrir sig hittist. Síðan á laugardag er heimsókn í VMA og svo óvissuferð en um kvöldið er matur og skemmtun fram á nótt í Náttúrulækningafélags húsinu í Kjarnaskógi. Og þá er það mál málanna ... í hvaða fötum á ég að vera? Úff púff alltaf sama vesenið á manni með það. Hm, kannski ég verði bara í rauða kjólnum sem ég keypti fyrir brúðkaupið þeirra Palla og Sanne. Það er alla vega hugmynd.

Í gær var eins og sumarið væri loks komið yfir sæinn (sbr. lagið) með sól og hækkandi hitastigi. Ég var að vinna fyrripartinn og var ekki komin heim fyrr en að verða fjögur (en það var nú líka af því ég fór í búð + að sækja bílinn á dekkjaverkstæði eftir vinnu). Þá fannst mér ekki annað hægt en nýta þetta góða veður á einhvern hátt, svo ég sótti reiðhjólið mitt niður í kjallara, pumpaði í dekkin og fór í smá hjóltúr upp í hverfið hér fyrir ofan. Var ekkert smá ánægð með mig :-)

Í dag er ég í fríi og er það þriðji miðvikudagurinn í röð sem ég er í fríi, því síðast var jú 1. maí og þá lokað á torginu. Ég finn að það gerir mér gott að fá svona fasta frídaga, finnst eins og þreytan nái ekki að verða jafn yfirgengileg, sem er alveg frábært. Yfirleitt fara frí-miðvikudagarnir aðallega í hvíld hjá mér en núna finnst mér ég jafnvel hafa orku í að gera eitthvað. Hm, ekki of mikið samt ... verð víst að safna í orkubankann fyrir stúdentsafmælið ;o)

Myndin sem fylgir er (enn og aftur!!) tekin á klöppunum norðan Háagerðis. Mér finnst svo gott að labba þangað og fá útsýni til norðurs, út á sjóinn og að Kaldbaki. Ljósmyndalega séð er þetta kannski ekkert æðisleg mynd, en ég var að reyna að sýna mosann og gróðurinn í forgrunni = snjórinn farinn :)

3 ummæli:

Anna Sæmundsdottir sagði...

Skemmtu þér vel Guðný mín :-)

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Takk Anna :) Ég fór ekki á hótelið í gær, en bekkurinn minn fór svo út að borða á Pengs um áttaleytið, og ég fór og hitti stelpurnar þar. Svo fórum við heim til einnar og sátum og spjölluðum fram undir miðnætti. Bara rólegheit :) Ég var nú samt pínu lúin í morgun en ekki örmagna, svo það var nú frábært :)

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Rauði kjóllinn kom bara mjög vel út :)