sunnudagur, 5. maí 2013

Sunnudagur til sælu

sunset, guðný pálína sæmundsdóttirÞað er fátt í fréttum. Tíminn líður og dagarnir hver öðrum svipaðir. Í síðustu viku bar það reyndar til tíðinda að við ÁLFkonur lögðum land undir fót með ljósmyndasýninguna sem var í safnaðarheimili Akureyrarkirkju, og settum hana upp í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Við fórum á þriðjudeginum 30. apríl til að setja upp sýninguna og ég fór sem sagt líka þó ég hafi nú kannski ekki gert mikið gagn. Daginn eftir, þann 1. maí var svo opnunin. Þær hinar fóru reyndar kl. 10 um morguninn til að klára uppsetninguna en ég treysti mér ekki af stað svo snemma. En við Valur vorum komin úteftir um hálf tvöleytið. Það er gaman að segja frá því að sýningin kemur enn betur út í þessu húsnæði og er næstum því eins og ný sýning. Við breyttum líka uppsetningunni og það hjálpaði mikið til fannst mér.

Þar sem við Valur vorum komin þetta langt út fjörðinn, þá datt okkur í hug að „nota ferðina“ og kíkja í kaffi til vinafólks okkar á Ólafsfirði, þeirra Ásgeirs og Stínu. Ég sló á þráðinn til Stínu og þau voru heima svo við renndum til þeirra. Það er alltaf jafn gaman að hittast. Nú eru um 20 ár síðan við bjuggum öll í Tromsö en þrátt fyrir að oft líði langt á milli samverustunda þá er ekki hægt að merkja það þegar við hittumst.

Við stoppuðum ekkert óskaplega lengi hjá þeim og komum svo aðeins aftur við á ljósmyndasýningunni en það var mjög stutt stopp því það var nánast orðið dautt á batteríinu hjá mér. Enda sofnaði ég í bílnum á leiðinni heim, svaf á sófanum fram að kvöldmat og svaf í nærri 12 tíma um nóttina ... Þegar ég vaknaði á fimmtudagsmorgni kl. 10:30 leið mér reyndar í fyrsta skipti í langan tíma eins og ég væri nokkuð vel úthvíld. Sú tilfinning var virkilega góð en því miður dugði hún aðeins þann daginn.

Ég er alltaf að spá í að nú verði ég að taka mataræðið hjá mér í gegn en það gengur hægt að framkvæma það. Það er reyndar ekki svo slæmt hjá mér mataræðið en alltaf hægt að gera betur. Ég sleppi enn þessum matartegundum sem ég var mæld með óþol fyrir en svo eru það blessuð kolvetnin ... Það sem ég þyrfti að gera er að skrá hjá mér það sem ég borða og líðan mína á eftir. Já ég þyrfti eiginlega að vera með alls herjar skráningarkerfi til að meta áhrif þess sem ég geri (vinna, hreyfing, svefn, mataræði) á líðan mína. Samkvæmt því sem ég hef lesið þá virðist svoleiðis skráning skila sér í betri sjálfsþekkingu og betri líðan hjá þeim sem gera þetta. Mér hefur bara vaxið þetta í augum. Svo reyndar er núna nýkomið á markaðinn tölvuforrit sem heitir FibroTrack og var þróað fyrir vefjagigtarsjúklinga og það er kannski auðveldara að vinna í því, heldur en búa til sitt eigið kerfi. En það kostar reyndar 10 dollara á mánuði.

Annars var ég í einhverju „fjölskyldu- og vina- saknaðarkasti“ áðan og birti í kjölfarið pínu væminn status á facebook. Með honum fylgdi 2ja ára gömul mynd af sólarlagi við Eyjafjörð og fær hún að fljóta með hér (smá tilbreyting frá öllum vetrarmyndunum).

2 ummæli:

HH sagði...

Kannske flýgurðu eins og fuglinn einhvern daginn enda lífið óútreiknanlegt.
HH

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Já það má alltaf láta sig dreyma :)