miðvikudagur, 15. maí 2013

Sá á kvölina sem á völina


Ég get flækt ótrúlegustu hluti óendanlega mikið fyrir mér. Eins og t.d. allt sem hefur að gera með samneyti við annað fólk utan vinnunnar. Eftir að vefjagigtin læsti klóm sínum svona heiftarlega í mig, þá er aldrei einfalt svar við því hvort ég get gert hluti eins og t.d. að fara á kaffihús með vinkonum eða hitta ljósmyndaklúbbinn minn að kvöldi til.

Einmitt núna er fundur í ljósmyndaklúbbnum og mig langaði að mæta. En þar sem ég var búin að fara í sund í morgun + vinna í dag + fara út að hjóla þegar ég kom heim, þá var innistæðan á orku-reikningnum orðin ansi lág í lok dags. Þar að auki á ég eftir þrjá vinnudaga í þessari viku - sem ég þarf að klára - og svo hef ég bara einn frídag til að safna mér saman fyrir næstu vinnuviku ... þannig að það er margt sem ég þarf að taka tillit til.

Þegar við bættist að ég var lúin og þar að auki ískalt inn að beini, þá varð niðurstaðan sú að vera heima.

Ég veit alveg að ég má ekki hætta að lifa lífinu þó ég sé með vefjagigt - en þegar það er þannig að maður þarf að „borga“ fyrir allt sem maður gerir, þá verð ég alltaf að vega og meta kosti (gaman að hitta skemmtilegar konur) og galla (á erfitt með að sofna þegar ég fer út á kvöldin - slæmur svefn leiðir af sér meiri verki, þreytu og sljóleika daginn eftir og jafnvel næstu 2-3 daga ef ég er óheppin.

Það var býsna góður þáttur um gigt í sjónvarpinu um daginn. Þar var meðal annars talað við konu sem lýsti þessu með þreytuna svo vel. Hvernig hún þyrfti helst að hvíla sig fyrirfram í einn dag ef hún vissi að hún ætti erfiðan dag fyrir höndum - og hvíla sig í 1-3 daga eftirá, allt eftir því hversu erfiður dagurinn var.

Þetta er mín upplifun líka, nema hvað ég hef ekki verið nógu dugleg fram að þessu að hvíla mig fyrirfram. Tók því samt viljandi mjög rólega vikuna fyrir stúdentsafmælið, til að eiga orku, og hvíldi mig svo allan laugardaginn og allan sunnudaginn - en fékk þá líka innistæðu fyrir því að geta verið úti bæði föstudags- og laugardagskvöld. Þannig að mér tókst að spila nokkuð vel úr þessu öllu þá.

Annars var ég að panta mér bók frá Amazon. Bókin heitir
Mind Over Medicine: Scientific Proof That You Can Heal Yourself og er eftir bandaríska konu sem heitir Lissa Rankin. Hún var starfandi kvensjúkdómalæknir í fullu starfi, en heilsan var ekki góð, þegar ytri kringumstæður urðu þess valdandi að hún ákvað að horfast í augu við óánægju sína með líf sitt, og gera breytingar á högum sínum. Í kjölfarið fór hún að skoða placebo áhrifin og hæfileika líkamans til að lækna sig sjálfur af ýmsum kvillum (að því gefnu að réttar kringumstæður séu fyrir hendi). Það er hægt að sjá tvo fyrirlestra með henni (á ensku) á TEDxTalks og hér er annar þeirra, ef einhver hefur áhuga. Mér sjálfri finnst þetta mjög spennandi efni og hlakka til að lesa bókina.

Engin ummæli: