þriðjudagur, 26. febrúar 2013

Ókeypis bækur á Amazon


Ég vissi það ekki fyrr en nýlega, að á hverjum degi er hægt að fá ókeypis rafbækur á Amazon. Það eina sem maður þarf að gera er að hlaða niður kindle forriti til að geta lesið bækurnar. Þessu forriti er víst hægt að hlaða niður í tölvu, á ipad og í farsíma svo dæmi séu nefnd. Enn sem komið er þá er ég eingöngu með mitt í tölvunni en ég held að það sé algjör snilld að setja það í símann líka. Þá get ég lesið á ferðalögum til dæmis.

Hvernig veit ég hvaða bækur eru ókeypis hverju sinni? Jú það er vefsíða sem heitir fkb.me (free kindle books) sem heldur utan um það. Á hverjum sólarhring gefa þau út lista með ókeypis bókum sem þau mæla með og ef maður er búinn „like-a“ vefinn á facebook þá fær maður tilkynningu þegar kominn er nýr listi. Það eina sem maður þarf að passa, er að þó bækur séu ókeypis þegar listinn er gefinn út, þá getur það breyst skyndilega. Þar af leiðandi er gott að bíða ekki lengi með að hlaða niður þeim bókum sem manni finnast áhugaverðar. Það er líka auðvelt að sjá á Amazon hvort verðið sem gefið er upp við hlið bókarinnar er 0 dollarar, eða eitthvað annað.

Ég er búin að sækja mér margar bækur á þennan hátt, alls konar bækur, og datt þess vegna í hug að fjalla um þennan möguleika hér á blogginu, svona ef það væru fleiri en ég sem þætti kærkomið að fá ókeypis bækur ;-)

En talandi um bækur þá er ég núna að lesa bók eftir Stephen King sem heitir „On   writing“ og fjallar um listina að skrifa bækur. Það er nú frekar fyndið því ég hef ekki lesið neina af skáldsögunum hans og ekki séð neinar kvikmyndir sem gerðar hafa verið eftir bókunum hans, nema Carrie. Ástæðan er einfaldlega sú að ég hef ekki haft áhuga á því. Hins vegar hef ég mjög gaman af þessari bók. Fyrri hlutinn er með sjálfsævisögulegu ívafi og fjallar um það hvernig rithöfundur verður til. Seinni hlutinn snýr meira að hagnýtum ráðum í ritlist. Ég fékk bókina lánaða hjá Önnu Heiðu, kennaranum á námskeiðinu sem ég er á. Hins vegar virðist líka vera hægt að hlaða henni niður af netinu á pdf formi svona ef einhver hefur áhuga.

8. mars 2013
Ég hefði betur sleppt því að benda á þessa síðu sem sýnir ókeypis bækur á Amazon, því það breyttust eitthvað skilmálarnir hjá Amazon og í kjölfarið hætti þessi aðili nánast að benda á ókeypis bækur. Það breytir því hins vegar ekki að það er áfram hægt að fá ókeypis bækur í vefversluninni, en það er sjálfsagt erfiðara að finna þær.

1 ummæli:

Anna Sæm sagði...

Vissi ekki af þessum lista en er einmitt með nokkrar ókeypis bækur frá Amazon í kyndlinum minum. Gardermoen. Snjór sólskin ládeyða frost 7 stig. Hálftíma seinkun á fluginu...