En já námskeiðið var sem sagt í Hofi í morgun og mér tókst að mæta tæplega fimm mínútum of seint af því öll bílastæði voru upptekin, bæði við Hof og Átak. Þátttakendur voru að kynna sig þegar ég kom og ég hafði greinilega misst af ca. helmingnum af kynningunni. Anna Heiða spjallaði svo aðeins við okkur en hápunktur tímans var það sem hún kallaði „orðahatt“. Þá fékk hvert okkar þrjá auða miða og áttum við að skrifa eitt orð á hvern miða. Síðan voru allir miðarnir settir í skál (venjulega notar hún hatt) og loks dró hvert okkar þrjá miða úr skálinni. Verkefnið var síðan að skrifa í 10 mínútur einhverja frásögn sem innihélt öll þrjú orðin sem við höfðum fengið.
Orðin sem ég fékk voru Jóga - Hlusta - Túnfiskur. Hehe, ég var komin á flug með fyrstu tvö orðin en túnfiskurinn breytti þeim hugmyndum öllum. En það gafst síðan enginn tími til að hugsa, heldur þurfti maður bara að skrifa það sem kom í hugann, því tíminn var jú svo stuttur. Til gamans þá kemur hér „bullið“ sem ég skrifaði:
Harpa sat í lotus-stellingu og hlustaði á jógakennarann mala. Hún fylgdi leiðbeiningum hans og fór úr einni stellingu í aðra, en hugur hennar var allt annars staðar. Hún átti svo margt ógert. Til dæmis var hún ekki enn búin að ákveða hvað hún ætlaði að hafa í kvöldmatinn.
Oh! Hún þoldi ekki þetta eilífa vandamál með kvöldmatinn. Auðvitað vissi hún alveg hvernig átti að leysa það. Setjast niður á sunnudegi með nokkrar matreiðslubækur. Gera áætlun fyrir vikuna og búa til innkaupalista í framhaldinu. Bara tær snilld! En nei, það var ekki séns að hún kæmi þessu í verk, frekar en öðru sem gæti einfaldað líf hennar.
O jæja, nú áttu þau að fara í einhverja stellingu sem hét „fiskurinn“. Hún reif sig upp úr hugsunum sínum og fór í réttu stellinguna. Hm, fiskur - kvöldmatur ... Já, hún gæti haft góða túnfiskréttinn frá Mæju frænku í kvöldmatinn.
Svo mörg voru þau orð. Næst áttum við að lesa upp textann okkar og þau hin áttu að giska á hvaða orð við hefðum fengið. Því miður þá kom röðin svo seint að mér að ég var eiginlega farin á taugum þegar stundin rann upp. Fannst allir hinir vera með svo flottan texta og sýna mikið hugmyndaflug. En já það er náttúrulega bannað að hugsa svona. Anna Heiða sagði að tónninn í textanum minnti hana á það sem hefur verið kallað „chick lit“ en það eru t.d. bækur eins og Dagbók Bridget Jones ofl. þar sem sagt er frá lífi kvenna með gamansömum undirtón.
Já já, ég dó nú ekkert við þetta en vá hvað ég var fáránlega stressuð miðað við tilefnið. Það hefur eitthvað að gera með mitt undirliggjandi vandamál tengt skriftum. Núna finnst mér nefnilega að ég verði að fara að gera eitthvað með þetta áhugamál mitt en á sama tíma þá fæ ég það sem heitir á norsku „prestasjonsangst“. Ég er hrædd um að standast ekki eigin væntingar og annarra (aðallega mínar eigin samt). En það þýðir ekki að taka þessu svona alvarlega. Ég verð bara að gera mitt besta og hafa gaman af þessu!!
7 ummæli:
Sæl og blessuð
Mér finnst þetta ekki "bull" þetta er skemmtileg frásögn hjá þér og mér finnst þú dugleg að drífa þig á þetta námskeið, eitt af því sem mig hefur alltaf langað til að gera en ekki þorað. Njóttu þín vel, bestu kveðjur frá Hrísey, Kristín Björk.
Takk Kristín Björk, en það hefði nú aldeilis verið gaman ef þú hefðir skellt þér á námskeiðið líka. Kannski er ennþá möguleiki fyrir þig. Það koma allir fyrirlestrarnir á netið og svo er líka innbundið hefti sem við fáum. Þannig að þú ættir að geta setið heima í Hrísey og tekið þetta í fjarnámi ef þú vildir ;) Bara hugmynd ...
Líst vel á.
Finnst þú nú bara hafa komist vel frá þessu. Í góðu lagi að skrifa léttan texta, enda varla hægt að búast við öðru á 10 mínútum með engan umhugsunartíma. Gangi þér vel áfram. Kveðja, Þórdís.
Takk Ella og Þórdís :)
Gott að þú dreifst þig á þetta námskeið! Láttu þetta verða hvatning, innblástur og "spark i baken" að gera eitthvað sem er næring fyrir sjálfið!!!
Takk Anna mín, ég skal reyna :) Hlakka mikið til að hitta þig um helgina!
Skrifa ummæli