mánudagur, 3. október 2011

Svo ótrúlega ánægð með leikfimina

Já ég er alveg svakalega ánægð með að hafa drifið mig í þessa vefjagigtarleikfimi. Ég man eftir því að hafa séð þetta auglýst í fyrrahaust, en tímarnir hentuðu mér svo illa af því ég vinn til skiptis fyrir og eftir hádegi. Núna er ég komin í það lélegasta form sem ég hef á ævinni verið í, og fæ meira að segja millirifjagigt af því að synda, svo ég sá að við svo búið mátti ekki standa. Ákvað að hafa samband við hana Eydísi sem sér um leikfimina og athuga hvort ég gæti fengið að flakka milli morgun- og eftir hádegishóps, allt eftir því hvernig vinnuplanið mitt er. Ég lýsti mínu ástandi sjálfsagt svo hræðilega, að hún hefur ekki getað annað en sagt já við þessu. Að minnsta kosti samþykkti hún þetta og svo samþykkti Sunna að koma aðeins fyrr í vinnuna þá daga sem leikfimin byrjar kl. 14 (sem er einu sinni í viku), og þá var leiðin greið fyrir mig. Eini gallinn er sá að við Sunna notum oft tímann milli 14 og 15/16 til skrafs og ráðagerða, en ég var komin á það stig að nú varð ég bara að láta heilsuna hafa forgang. Það er hvort sem er afar takmarkað gagn að mér í vinnu þegar ég er alveg handónýt af þreytu og verkjum.

Ég er sem sagt mjög sátt við þær breytingar sem ég er að gera hjá mér varðandi hreyfingu og mataræði. Ekki segi ég nú samt að þetta með mataræðið sé létt, og þá sérstaklega vegna þess að ég er jú ekki bara að taka út t.d. glútein og borða annað mjöl, ég er að taka út allar kornvörur með það að markmiði að sleppa við blóðsykur-rússíbanann. En vá hvað ég hefði viljað getað haldið áfram að borða egg og osta... Valur var að grilla hamborgara í kvöld og var að rífa ost ofan á og það lá við að ég tæki ostaskerann og fengi mér eina sneið, bara svona alveg óvart. Minn hamborgari var sem sagt borðaður "allsber" með blómkáli, gulrótum og beikoni. Ekkert hamborgarabrauð, engin hamborgarasósa (inniheldur egg) og enginn ostur ofaná.

Í hádeginu græja ég mér salat ef ekki eru til neinir afgangar af kvöldmatnum frá því deginum áður. Bara verst að það tekur ótrúlega langan tíma að skera niður í salat (eða ég er svona hægfara) og í morgun ætlaði ég að mæta uppúr níu í vinnuna til að vinna í bókhaldi, en var óralengi að skera salat og kom því seinna í vinnuna en ég ætlaði. Þyrfti náttúrulega að gera þetta kvöldinu áður en ... hm sjáum til með það.

Og nú er ég farin að sofa.

Engin ummæli: