þriðjudagur, 25. október 2011

Upptúrar og niðurtúrar

eru þema októbermánaðar. Það er eins og það vanti alveg jafnvægið í mig þessa dagana. Í gær t.d. hélt ég að nú væri ég að fá enn eitt gigtarkastið. Leið eins og ég væri að verða veik og hélt haus með því að troða í mig verkjatöflum og drekka kaffi. Við Valur fórum á jarðarför og þess vegna var ég fyrst að vinna frá 10-12 og svo frá 16-18.30. Það var verið að jarða tengdapabba hennar Sunnu, sem var aðeins 11 árum eldri en Valur. Jarðarfarir eru misjafnar eins og gengur og gerist en þetta var virkilega falleg athöfn. Ræða prestsins góð, lög, textar og flutningur líka. Ég treysti mér samt ekki í erfidrykkjuna á eftir, m.a. vegna þess að ég var svo slöpp og vildi bara fara heim og hvíla mig áður en ég þyrfti að fara aftur í vinnuna.

Eftir vinnu var svo námskeið í Lightroom (forrit til að vinna myndir) í Símey. Áður en ég fór þangað skellti ég í mig enn einni verkjatöflunni og Valur bjó til espresso handa mér. Það dugði þar til rúmlega tíu en þá var ég orðin býsna framlág. Í nótt vaknaði ég svo klukkan fjögur og leið eins og ég væri orðin alveg fárveik. Illt í öllum skrokknum, illt í höfðinu, illt í hálsinum og bara alveg ónýt eitthvað. Fór að hafa áhyggjur af því að komast ekki í vinnuna í dag og ætlaði aldrei að geta sofnað aftur fyrir áhyggjum af þessu ástandi á mér.

Jæja, ég svaf til klukkan níu í morgun og þegar ég fór á fætur fann ég að ég var mun hressari en í nótt. Þannig að ég ákvað að drífa mig í vinnuna, hugsaði ég hlyti að geta haldið haus þar í fjóra tíma. En svo gerðist hið ótrúlega, ég bara hresstist eftir því sem leið á morguninn og var ótrúlega spræk. Engin veikindatilfinning og ég gat þurrkað af ryk og þrifið eins og mér væri borgað fyrir það. Svo steinsofnaði ég reyndar á sófanum þegar ég var komin heim, en það er önnur saga ... :-)

Engin ummæli: