sunnudagur, 27. nóvember 2011

Arg!

Þreytt - þreytt - þreytt. Þrátt fyrir 2ja daga helgarfrí er ég ennþá þreytt og verð að viðurkenna að það vex mér ógurlega í augum að eiga að mæta í vinnu á morgun. Kannski verð ég hressari á morgun, það má vona... Reyndar hef ég jú ekki verið alveg í fríi frá vinnu. Var að vinna í bókhaldinu á föstudagskvöldinu og í morgun og svo hefur mér gengið framúrskarandi illa að setjast / leggjast og bara hvíla mig. Ég hef einhvern veginn ekki eirð í mér til að vera kyrr og finnst að ég eigi að vera á fullu að gera eitthvað gáfulegt.

Svo er virkilega erfitt andlega séð að detta aftur niður í svona gríðarlega þreytu, eftir að hafa verið skárri um sinn. Og það er líka erfitt fyrir fólkið í kringum mig. Plús, að ég verð alveg óð í sykur og ég sem ætla ekki að borða sykur. Það er erfitt! Hingað til hef ég látið 70% súkkulaði, hnetur, kaffi og eina og eina döðlu duga, og eins gott að ég falli ekki í freistni nú þegar ég á bara eftir að verða enn þreyttari á næstu fjórum vikum. Þetta er algjör klemma sem ég er í, því ég þyrfti svoleiðis að vera á bremsunni og passa uppá að fá nægilega hvíld og t.d. ekki vinna 6 tíma í einu því ég veit af biturri reynslu að það er alltof mikið fyrir mig. EN - það er ekki hlaupið að því þegar maður er verslunareigandi og það í jólatörninni. Auðvitað munar rosalega um að við Sunna erum tvær, en helst þyrfti að vera manneskja með okkur stærstan partinn af desember ef vel ætti að vera.

Ég er eiginlega dauðfegin að hafa hætt í kórnum. Það er svo brjálað að gera þar núna, fyrst voru afmælistónleikar um daginn og svo verða tónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefnd 8. des. og þetta hefði bara þýtt ennþá meira álag, svo það er gott að ég er hætt þar. Pínu sorglegt samt líka því mér fannst þetta svo skemmtilegt... en það er önnur saga.

Ég finn samt að það gerir mér gríðarlega gott að vera í leikfiminni. Á fimmtudaginn síðasta var leikfimi kl. 14 og ég hafði verið alveg svakalega þreytt allan daginn í vinnunni, og var mikið að hugsa um að sleppa leikfiminni í þetta sinn. Fór samt og var nánast eins og svefngengill allan tímann. Verkjaði endalaust í allan skrokkinn og vantaði allan kraft í vöðvana. Í lokin var slökun og ég náði að slaka nokkuð vel. Fór svo heim og fékk mér kaffi og eftir smá stund var ég bara öll önnur. Leið betur en mér hafði liðið allan daginn. Svo það er greinilega lífsnauðsynlegt að halda áfram í leikfiminni. Bara verst að það er að verða svo mikið að gera í vinnunni að það er varla forsvaranlegt að stökkva út kl. 14 á daginn. En það er nú að vísu bara einu sinni í viku, því hitt skiptið er leikfimin að morgninum. Samt, þá þarf núna endalaust að panta vörur og taka upp vörur, svona á milli þess sem við afgreiðum viðskiptavini, svo það er eiginlega á mörkunum að ég hafi samvisku til að stinga af í leikfimina. En geri það nú samt af því ég veit það gerir mér gott.


Engin ummæli: