fimmtudagur, 24. nóvember 2011

Upp og niður, upp og niður

Það er lýsingin á heilsufari mínu og ef litið er á björtu hliðarnar þá er betra að það sveiflist upp og niður, heldur en að það sé bara niðri.

En eins og venjulega, ef mér hrakar minnstu vitund, þá fer ég á fullt að leita skýringa, og kem með þær ansi margar og misgáfulegar.

  • Kannski var ég alls ekkert betri í skrokknum vegna mataræðisins, kannski var það bara vegna þess hve haustið hefur verið óvenju gott í ár. 
  • Kannski er það streita sem er að fara með mig núna. 
  • Kannski er ástæðan sú að við erum í sífellu að taka upp vörur í vinnunni, sem þýðir að það eru ansi mörg kíló sem maður lyftir upp úr kössum og handfjatlar í nóvember og desember. 
  • Kannski stífnaði ég svona mikið upp á því að keyra til Ólafsfjarðar í hálkunni og krapinu í gær. 
  • Kannski er það mataræðið eftir allt saman. Ég hef aðeins verið að auka kolvetnin, en það er helst í formi þess að borða gulrætur og 70% súkkulaði. Það er samt ekki í því magni að það ætti að koma að sök. 
  • Kannski er ég stíf í mjöðmum og baki eftir að labba upp Kotárbrekkuna í tvígang með stuttu millibili. 


Já svona heldur listinn áfram og ef þetta er ekki ofhugsun þá veit ég ekki hvað. Málið er bara að hugsa sem svo: "Ég er þreytt og mig verkjar í skrokkinn þessa dagana, en það er áreiðanlega bara tímabundið. Ég hressist fyrr en varir og ætla pottþétt að halda áfram með mataræðið sem hefur gagnast mér svona vel."

Og með þessum jákvæðu lokaorðum ætla ég að hætta þessu pári og drífa mig í vinnuna.

Engin ummæli: