Úti er afskaplega fallegt vetrarveður. Allt á kafi í snjó og algjört logn. Stærðar klakadrönglar hanga framaf húsþakinu hér í stofunni og það glampar svo skemmtilega á þá í myrkrinu. Kettirnir sofa sem betur fer inni í vaskahúsi, því ef þeir væru vakandi myndi Máni byrja að mjálma og væla og vilja komast fram til mín. Já og hoppa á hurðarhúninn til að reyna að opna.
Hrefna fór aftur til Köben í dag og eins og venjulega er pínu skrítið þegar hún er farin. En svona er þetta, unga fólkið á sitt eigið líf og það er bara eðlilegt að þau fari að heiman. Væri óeðlilegt ef þau gerðu það ekki... Andri er enn á Flórída og maður sér bara myndir af honum á Facebook. Jú jú, og svo er einstaka símtal líka ;-)
Annað gengur sinn vanagang. Við Valur vorum jafnvel að spá í ljósmyndaferð að Goðafossi eða Mývatni í fyrramálið en ég veit nú ekki hvernig það fer ef frúin verður ekkert búin að sofa. Þegar ég dett í þessar andvökur sofna ég stundum ekki fyrr en á milli fimm og sex og þá er nú hætt við því að ég verði mjög mygluð um níuleytið í fyrramálið.
Framundan er svo hefðbundin vörutalning í vinnunni og til að gera hana "skemmtilegri" er búið að hækka virðisaukaskattinn og því þurfum við að breyta vöruverði í leiðinni. Annaðhvort í sjálfu sölukerfinu, eða breyta öllum verðmerkingum á vörum í búðinni, til samræmis við virðisaukahækkunina. Það er nefnilega búið að setja þessa nýju virðisaukaprósentu inn í sölukerfið og hækkar þá allt vöruverð sjálfkrafa án þess að við fáum nokkru um það ráðið. Og þá stemmir vöruverðið í sölukerfinu allt í einu ekki við verðmerkingar á vörunum. Meira ruglið!
Jæja, nóg komið, ætli ég geri ekki enn eina tilraunina til að fara að sofa þar sem klukkan er jú að verða fimm. Verst að geta ekki bara farið út að taka myndir...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli