Við fengum óvænta heimsókn í dag þegar Shree og Surekha litu við án þess að gera boð á undan sér. Þau sögðust bara hafa ákveðið að gera eins og í gamla daga, og er það orð að sönnu, nú fara fáir í heimsóknir án þess að vera boðið eða hringja á undan sér. Mér finnst það breyting til hins verra. Það er gaman að fá heimsóknir og maður er svo latur að bjóða heim. Væri gaman ef fleiri "droppuðu" bara við hjá manni. Hins vegar verður maður þá líka að taka því þó húsið sé kannski ekki alveg tipp topp, enda nennir maður ekki að vera endalaust með ryksuguna og tuskuna á lofti.
Annars er farið að styttast í að Andri og þau komi heim og þá byrjar nú næsta fjör, sem eru prófin hjá honum. Prófatímabil eru leiðinda tímabil, bæði fyrir nemendur, foreldra og kennara.
Það verða engin nýársheit hjá mér í ár frekar en fyrri daginn. Ég setti mér raunar hálfgert nýársheit í fyrra og tókst að sjálfsögðu ekki að standa við það. Markmiðið var að verða í betra formi um þessi áramót en þau fyrri og ekki get ég sagt að sú sé raunin. Ég byrjaði reyndar í líkamsrækt í nóvember en það er mjög erfitt að mæta reglulega þangað á háannatíma verslunarinnar. Nú á ég að vísu árskort í Átak því það var svo fínt tilboð fyrir jólin að við Ísak fengum bæði árskort, svo það má vona að mér takist að ná mér á strik í líkamsræktinni. Ef ég fer bara nógu rólega þá gerir það mér gott - og ég er orðin pínu leið á sundinu. Þar er nú samt fínn félagsskapur og því geri ég ráð fyrir að halda áfram þar, meðfram ræktinni.
En já, ég held að ég láti þetta gott heita í bili, vonandi verður ekkert blogg næstu nótt!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli