Annars er bara gott eitt um það að segja að þurfa að tæma svona geymslur, þvílíkt ógrynni af dóti sem maður safnar að sér og engin þörf er á að eiga. Ég á samt í mestum vandræðum með gömul leikföng, finnst eitthvað svo erfitt að láta þau frá mér. Ef maður fengi nú barnabörn og svona... Nú, svo eru meira að segja gamlar dúkkur úti í geymslu frá því við Anna vorum litlar. Já og eldgömul skólataska með bókum í, sennilega barnaskólabókum - og ekki getur maður nú hent svoleiðis dýrgripum. Þá þarf að finna pláss hér innandyra og ætli líklegast til árangurs í þeim efnum sé ekki að raða betur í geymsluna niðri og fá fleiri og betri hillur þar inn. Taka gamla smíðabekkinn og setja hillur þar. Jafnvel rúmfatageymsluna líka. Já, við búum svo vel að eiga hér tvær rúmfatageymslur. Ein er sem stendur í útigeymslunni og gott ef Anna systir notaði hana ekki í sínu herbergi. Hin er niðri í innigeymslu og er enn eldri held ég.
En æi, ég er hætt þessu rausi. Fer og hringi í Fjölsmiðjuna...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli