þriðjudagur, 1. desember 2009

Afmælisdagur ömmu

Já, amma mín Pálína Daníelsdóttir, var fædd 1. desember árið 1884. Hún náði þeim áfanga að verða hundrað ára en dó í febrúar 1985. Um daginn rakst ég á kvæði sem pabbi, Sæmundur G. Jóhannesson, orti til hennar á 92ja ára afmæli hennar og birti það hér til gamans.

Þegar amma var ung,
var hún alls ekki þung,
hún var alveg sem laufblað í vindi.
Og hún hreyfði sig létt,
hún var lipur og nett,
hún var lífsglöð með kvenlegu yndi.

Þá kom fullorðinstíð,
háð við storma var stríð,
yfir steina hún rann til að smala.
Stóð við orfið að slá,
hrífu óspart tók á,
og sín afkvæmi varð hún að ala.

Oft í búi var þröng,
yrðu börnin of svöng,
hversu biturt það sveið móðurhjarta.
Engin skerandi neyð,
hennar skyggði þó leið,
og hún skammtaði án þess að kvarta.

Tugmörg ævinnar ár,
gerðu ósléttar brár,
hárið silfrað og kreppt er nú höndin.
Þó er bókhneigðin söm,
enn er bréfaskrift töm
fingrum bogum, því ókreppt er öndin.

Guði þakkirnar ber
fyrir allt, sem þú er
bæði okkur og vinunum dyggu.
Er þú flutt verður heim
Guðs í himneskan geim,
munu hlotnast þér laun hinna tryggu.

Til að sjá meira um ömmu má t.d. lesa síðasta bloggpistil hennar mömmu, Þóru Pálsdóttur.

Engin ummæli: