Ísak tekur fjarveru mömmu sinnar af stóískri ró - það er helst að kettirnir sakni mín, hehe. Þau eru að minnsta kosti fljót að birtast þegar ég kem heim og þurfa þá extra athygli.
Annars er fátt í fréttum. Andri er kominn út til Flórída með Sunnevu og fjölskyldu og þau njóta lífsins í tuttugu stiga hita. Hrefna kemur heim á Þorláksmessu, með beinu flugi frá Kaupmannahöfn. Það verður gott að fá að knúsa hana.
Ætli jólin fari svo ekki að mestu leyti í hvíld og afslöppun eftir þessa miklu vinnutörn. Það væri reyndar alveg draumur í dós að komast út að taka myndir. Nú er orðið svo langt síðan ég fór síðast og ég sakna þess að hafa ekki myndavélina í höndunum. Síðan er ég búin að kaupa garn í lopapeysu á Andra og stefni að því að prjóna sem mest um jólin. Já, sem minnir mig á það, ég þarf að athuga hvort ég á ekki prjóna í réttri stærð. Ég hef nefnilega aldrei prjónað lopapeysu áður, þ.e. ekki úr "alvöru" lopa. Mín var jú bara úr léttlopa. En talandi um hana þá er ég í henni núna. Það var ágætt að hvíla hina lífseigu bláu flíspeysu sem gegnt hefur hlutverki "heimapeysu" hin síðustu ár. Valur átti samskonar flíspeysu og hann er líka í nýrri lopapeysu, þannig að þetta er bara alveg nýtt "look" hérna heima við :)
Úff, ég er með þvílíku þreytuverkina í fótunum. Þetta er bara alveg eins og þegar ég var að vinna sem sjúkraliði fyrir einhverjum tuttugu og fimm árum síðan. Eftir kvöldvaktir var ég svo upprifin og ætlaði aldrei að geta sofnað (eins og núna) og oft alveg svakalega þreytt í fótunum (eins og núna).
En ætli sé ekki best að reyna að fara að sofa þar sem klukkan er að verða tvö.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli