laugardagur, 26. desember 2009

Þyrfti svo sannarlega að taka mig aðeins saman í andlitinu

en letin er að drepa mig. Hef ekki ennþá farið í bað í dag - en svo enginn haldi nú að ég sé einn allsherjar drulluhaugur, þá upplýsist hér með að ég fór í bað í gær... Og ég hef hreinlega ekki gert neitt í dag nema fara út að taka myndir í snjókomunni. Svaf til hálf ellefu, sem virðist vera minn "vöknunartími" í skammdeginu, þ.e.a.s. ef ég fæ að sofa eins lengi og ég vil, og er bara búin að "hanga" og gera ekki neitt nema borða í dag. Og nú styttist í næstu máltíð.
Allt sem ég hafði hlakkað til að gera í mínu þriggja daga jólafríier ennþá ógert og samviskubitið er farið að láta á sér kræla. Og svo ég ali nú á samviskubitinu í sjálfri mér þá kemur hér upptalning á öllu því sem ég á ógert:

* Setja súkkulaði á kókos-haframjölssmákökurnar sem Valur bakaði
* Þvo öll skítugu fötin mín sem ég hafði ekki tíma til að þvo á meðan jólavertíðinni stóð
* Baka brauð eða bollur
* Gera rækjusalat
* Gera við snjóbuxur fyrir Val
* Lesa bókina sem Sunna gaf mér í afmælisgjöf
* Byrja að prjóna lopapeysu á Andra
* Gera "kúk" (eins og Valur kallar súkkulaði-marspipan-rúlluna)

Tja, ætli þetta sé ekki bara upptalið!

Það sem ég er búin að gera í jólafríinu:

* Slappa af
* Læra á nýja farsímann minn
* Borða
* Sofa
* Horfa á tvær gamanmyndir
* Fara út og taka ljósmyndir

Á morgun er frjáls opnun á Glerártorgi og ætlum við Sunna að hafa lokað í Pottum og prikum. Sem er kannski vitlaysa því fólk er hugsanlega orðið þreytt á að hanga heima hjá sér og langar að þvælast í verslanir í jólafríinu og skipta jólagjöfum. En einhvern tímann verður nú verslunarfólk að fá frí og þeir eru ekki margir dagarnir á árinu sem er lokað á Glerártorgi.

Í kvöld ætla margir á mínu reki á "Dynheimaball" sem reyndar verður í Sjallanum en ég er engan veginn að nenna svoleiðis útstáelsi. Hrefna hins vegar ætlar að hitta vinkonur úr MA og aldrei að vita nema þær fari á skrall. En örugglega ekki í Sjallann samt ;) Það er kannski spurning að allir þrír fjölskyldumeðlimirnir sem munu verða heima í kvöld prófi nýja spilið sem var í möndlugjöf í ár, Heilaspuna, þó húsfreyjan sé illa haldin af spilafóbíu.

Engin ummæli: