laugardagur, 10. október 2009

Jæja þá er víst útséð með að Rósa komi á skátafund


Mystery island, originally uploaded by Guðný Pálína.

því ekkert flugveður hefur verið sökum veðurs og þó hún kæmist norður um miðjan dag þá tekur það því hreinlega ekki að koma fyrir svo stuttan tíma. Mér finnst mjög leiðinlegt að hún kemst ekki. En þar sem búið var að skipuleggja þetta allt saman þá mun víst áætlun okkar hinna standa. Ég var nú reyndar svo sniðug að stinga uppá að við tækjum kvöldið snemma og hittumst kl. 17.30 - en tók svo að mér að vinna í dag þar sem ein þurfti að fá frí. Það þýðir að ég verð að vinna til kl. 17... tja, nema Andri væri til í að koma síðasta hálftímann fyrir mig. Það var nú kona í sundinu að hrósa honum þvílíkt í gærmorgun. Sagði að hann væri svo einstaklega kurteis og almennilegur. Það er bara algjörlega dottið úr mér hvaða kona þetta var - en ég var samt hissa á að hún vissi að Andri væri sonur minn svo ekki þekki ég hana sérlega vel.

Ég hélt nú áfram að prjóna peysuna þrátt fyrir þessi mistök sem ég hafði gert en ánægjan er einhvern veginn ekki sú sama. Svo bætist við að munsturliturinn átti að vera fölgrár en hann var ekki til svo ég keypti bara hvítt - og nú er ég sem sagt farin að velta því fyrir mér hvort hún hefði kannski verið fallegri með gráa litnum... Já, það er ekki tekið út með sældinni að prjóna! Á það ekki annars að vera svo róandi?

Veðrið úti er ekki beint spennandi, rok og rigningarsuddi, grár himinn. Snjórinn er nánast farinn hér í bænum en ennþá allt grátt í hlíðinni fyrir neðan Fálkafell. Lengra upp sést ekki. Máni hefur ekki einu sinni gert tilraun til að fara út í dag og það segir nú ýmislegt.

Ísak svaf hjá vini sínum í nótt og Andri hjá vinkonu sinni, Valur er í vinnunni og við kettirnir ein hér heima í bili. Ætli Valur fari ekki bráðum að skila sér heim og þá fáum við okkur morgunkaffi saman og kíkjum í blöðin.

Myndin hér að ofan er tekin í sumar þegar við Valur og Ísak fórum með Önnu og Sigurði í smá ferðalag. Þetta er einhver eyja á Skjálfanda og eins og sést voru birtuskilyrðin mjög sérstök þetta kvöld.

Engin ummæli: