miðvikudagur, 14. október 2009

Ekki-þreytublogg :-)

Hehe, já bara svona til að klára nú daginn, þannig að engin mínúta sé undanskilin... þá tilkynnist hér með, að eftir að hafa skrifað svefnbloggið í dag, fór ég ekki aftur í rúmið heldur að þrífa inni í Ísaks herbergi. Það kom þannig til að ég dró frá glugganum þar inni og þar með skein sólin inn og lýsti upp allt rykið og skítinn, og það dugði til að vekja mig hressilega. Fyrst var það ryksugan og rykburstinn og svo var Ísak sóttur til að taka þátt í þessum gjörningi. Hann fékk líka að þurrka ryk og þrífa með blautum klút, áður en ég skúraði svo gólfið. Ég er ekki frá því að það sé annað loft þarna inni núna.

Þegar hér var komið sögu var kominn tími til að fara á foreldrafund í skólanum. Ég bauð mig nefnilega fram sem bekkjarfulltrúa í haust og við ákváðum að hóa foreldrunum saman til að ræða ýmis málefni tengd unglingunum okkar, s.s. útivistartíma, tölvutíma, hjálmanotkun ofl. Ég veit nú ekki alveg hve margir foreldrar mættu, kannski 25 fulltrúar þeirra 50 barna sem í árganginum eru, en ætli það megi ekki bara teljast nokkuð gott. Það nennir enginn að mæta á svona fundi, fólk mætir það ekki af því það búist við að verði svo gaman, heldur af skyldurækni. Stundum hef ég slaufað svona fundum af því ég hef hreinlega ekki nennt að mæta, en það er nú reyndar afar sjaldan.

Jamm og jæja, þegar við ætluðum heim aftur kom í ljós að ekki var hægt að skella skólanum í lás og við þurftum að ræsa út húsvörðinn til að læsa. Hann hló nú þegar hann sá mig þarna og var alveg viss um að þetta væri allt saman mér að kenna. Alltaf jafn stríðinn! Markús húsvörður, kallaður Krúsi hér á árum áður, var nefnilega sundlaugarvörður hérna í den þegar ég var að æfa sund, þannig að við höfum þekkst lengi.

Nú svo fór ég heim og fékk ljómandi góðan fisk að borða hjá eiginmanninum. Hið sama fékk Ísak, en Andri er að vinna hjá Gallup í kvöld og slapp við fiskinn (ekki hans uppáhaldsmatur). Að baki er svo frágangur í eldhúsinu og framundan er prjónaskapur :-)

Engin ummæli: