sunnudagur, 18. október 2009

Dugnaðardagur í dag

Já, það kemur fyrir, ekki oft... En við Valur tókum góðan skurk í dag. Fyrst fór hann út að sópa laufin sem voru búin að safnast fyrir á bílaplaninu og stéttinni fyrir utan. Svo fór hann að setja inn sumarhúsgögnin og þá ákvað ég að taka þátt í fjörinu og fór með honum í útigeymsluna. Þar tíndum við til rusl og gamalt dót sem mátti henda og löguðum til. Það endaði með því að við fórum með fulla kerru á gámana, hvorki meira né minna, og nú er aðeins rúmbetra þarna inni. Svo bakaði Valur vöfflur og Andri og Sunneva komu í kaffi (já og Ísak var heima líka) og við hámuðum í okkur góðgætið. En ég var enn í tiltektarstuði. Fór næst í skápinn í forstofunni og tíndi til skó sem áttu ýmist að fara í geymslu eða út í bílskúr. Næst á dagskrá var geymslan undir stiganum og þar náði ég að fylla einn svartan stóran ruslapoka með dóti sem á að henda og annan poka með nýtilegu dóti sem fer í Rauða krossinn eða Hjálpræðisherinn. Þegar hér var komið sögu var ég nú orðin ansi lúin og búin að fara langt fram úr sjálfri mér - en enn í gírnum... svo ég lagaði aðeins til í hillunum í búrinu líka. Nú er ég hætt! Farin að prjóna og hvíla mig.

Engin ummæli: