sunnudagur, 27. janúar 2008

Taugatitringur

Það hefur verið margt í gangi undanfarið, á fleiri en einum vígstöðvum, og satt best að segja finn ég fyrir því að vera orðin svolítið andlega þreytt á allri þessari streitu.

Hrefna var að leita sér að íbúð í Kaupmannahöfn og er loks búin að fá jákvætt svar við sínu síðasta tilboði, þannig að það mál ætti að vera komið í réttan farveg. Það var ekki alveg einfalt mál að setja sig inn í það hvernig íbúðakaup ganga fyrir sig í Danmörku og erfitt að vera að reyna að aðstoða hana, verandi á Íslandi. Þetta var svona "learning by doing" aðferðin og allt hafðist þetta að lokum.

Valur og félagar í Læknastofum Akureyrar hafa verið að vinna á fullu í því að koma glænýrri skurðstofu á koppinn og eins og venjulega þá er það íslenska leiðin sem er farin (enn verið að vinna á fullu og fyrstu aðgerðirnar á morgun). Það er hins vegar ekki við þá að sakast, heldur var húsnæðið ekki tilbúið fyrr en í gær og þá fyrst var hægt að hefjast handa við að innrétta og ganga frá tækjum og tólum.

Það styttist óðum í að Pottar og prik flytji á Glerártorg. Við fáum rýmið okkar afhent um mánaðamótin mars/apríl og 2. maí á allt að vera klárt. Hönnunarvinnan er í fullum gangi en margir lausir endar ennþá og pínu stress í kringum þetta allt saman. Það þarf að velja gólfefni, ákveða úr hvaða efnivið hillurnar eiga að vera og pæla þar fyrir utan í alls kyns smáatriðum, svo verslunin verði bæði falleg útlits og gott að vinna í henni.

Ísak er búinn að vera ótrúlega mikið veikur í vetur, er alltaf að fá einhverjar pestar og við skiljum hreinlega ekkert í þessu, hann hefur nú yfirleitt verið frekar hraustur. Hann var heima megnið af síðustu viku, örugglega í fimmta skiptið í vetur sem hann er lasinn.

Andri er búinn í prófunum og útkoman er í samræmi við hans væntingar. Núna áðan var hann að keppa í handbolta á móti ÍR og töpuðu KA strákarnir því miður með einu marki. Ég var eiginlega alveg búin á því eftir leikinn, það var mikill taugatitringur í gangi á báða bóga og á tímabili sauð uppúr hjá andstæðingunum með þeim afleiðingum að þjálfarinn var rekinn uppí stúku og hverjum leikmanninum á fætur öðrum var vikið af velli í tvær mínútur, þannig að í smá tíma voru bara þrír útileikmenn hjá ÍR.

Jamm, annað hvort er ekkert blogg svo dögum skiptir, eða ég fæ munnræpu (skriftarræpu) þegar ég byrja... Held ég segi þetta gott í bili, þarf að fara í búð því það fékkst engin léttmjólk í Bónus.

Engin ummæli: