þriðjudagur, 1. janúar 2008

Óreiðan á skrifborðinu mínu pirrar mig

Þar eru reikningar sem búið er að greiða, reikningar sem á eftir að greiða, mappa fyrir Andrésblöð (sem Ísak á), útvarp (sem Ísak á), jólasveinahúfa (sem Ísak á), ljósmyndir í ramma, kattarhár, dagatal frá 2007, límbandsrúlla, ipod (sem Ísak á), reiknivél, afþurrkunarklútur, auglýsingapési sem fylgdi Morgunblaðinu (20% afsláttur af miðaverði á myndina The Golden Compass ef greitt er með korti frá Spron), ilmvatnsprufa frá Jil Sander, mosavaxinn steinn sem ég fann einhvers staðar en man ekki hvar, pennabaukur klæddur að utan með bútasaumsefni, geisladiskar með námsefni á dönsku (sem Ísak er með í láni), ævisaga föður míns í tveimur bindum, tölvuleikur (sem Ísak á), aðventuhjarta úr rauðu efni með ísaumuðum gylltum perlum (sem Val var gefið), vörulisti A4 fyrir árið 2008, gjafabréf í slökunarnudd (jólagjöf frá Andra og Ísak til mín)... Þið skiljið hvað ég er að fara.

Tvennt vekur athygli mína, annars vegar sú staðreynd að Ísak á ansi marga hluti á skrifborðinu mínu, hins vegar að mig vantar nýja möppu fyrir reikninga. Og nú er ég hætt þessu rausi og farin að laga til.

Engin ummæli: