sunnudagur, 6. janúar 2008

Arg og garg

Mér gengur svo hræðilega illa að hætta aftur að borða sykur. Ég veit ekki fyrri til en ég er búin að háma í mig þrjár smákökur eða fimm konfektmola, þetta gerist bara ósjálfrátt. Finn samt hvað ég er öll orðin útbelgd eitthvað, með bjúg og verri í húðinni - en það dugar ekki til... Skil ekki hvernig mér tókst þetta í haust. Til að kóróna ástandið er ég að drepast í öðru hnénu eftir að ganga í vinnuna um daginn. Ég var á fjallgönguskóm af því ég hafði gleymt léttari gönguskónum niðri í vinnu. Svo var ég að flýta mér, þannig að ég gekk eins hratt og ég gat, með þeim afleiðingum að vöðvafestur innanvert á hægra hné bólgnuðu upp og skerða hreyfigetu mína, auk þess að gefa leiðinlega verki. En þrátt fyrir sykurfíkn, bólgið hné og niðamyrkur úti þá er ég í ágætis formi og horfi bara nokkkuð björtum augum á lífið, svona í augnablikinu alla vega :-)

Það er helst að frétta af öðrum fjölskyldumeðlimum að Valur og félagar voru að flytja Læknastofur Akureyrar í gær, úr Hofsbótinni yfir í Krónuna þar sem verða líka skurðstofur, þær fyrstu einkareknu á Akureyri og því er um stóran áfanga að ræða. Hrefna var í prófi 2. jan. og gekk ágætlega. Svo á hún munnlegt próf eftir og við sendum henni baráttukveðjur! Andri er í Reykjavík að keppa í handbolta og styttist í próf hjá honum í Menntaskólanum. Ísak gisti hjá vini sínum í nótt og er bara hress og kátur. Birta og Máni hafa leikið á alls oddi undanfarið, líklega vegna þess að við höfum verið svo mikið heima og þau elska félagsskap. Þessa dagana vita þau líka fátt betra en að drekka vatnið af jólatrénu í stofunni, þannig að Valur hefur þurft að vökva jólatréð ansi oft þessi jólin.

Læt ég nú þessari langloku lokið!

Engin ummæli: