miðvikudagur, 14. mars 2007
Tókst að komast áfallalaust í gegnum daginn
Var þó farin að efast á tímabili. Hélt mig hér heima framan af morgni en fór svo í útréttingar og kom heim um eittleytið. Rak þá augun í Andra sem var á leiðinni aftur í skólann eftir matarpásu. Keyrði hann í skólann og þegar við vorum að renna þar upp að hringdi farsíminn minn. Andri svaraði og talaði smá við pabba sinn en rétti mér svo símann. Á þeim tímapunkti var bíllinn stopp. Ég tók við símanum af Andra og ætlaði að aka af stað - en á sama tíma ætlaði sonurinn að fara út úr bílnum (var búinn að opna hurðina og ætlaði að stíga út). Ég áttaði mig í tíma og stoppaði aftur og hann fór út (eftir að hafa horft á mig með ansi skemmmtilegum svip, það var eins og hann væri ekki alveg að trúa því að mamma hans gæti verið svona rosalega utan við sig). Síðan keyrði ég af stað, með símann í hendinni, og var búin að steingleyma að Valur biði á línunni. Það tók nú reyndar ekki nema stutta stund þar til ég mundi eftir því og tók upp tólið. En ég var eiginlega farin að hafa þungar áhyggjur af því hvernig þessi dagur myndi enda úr því hann byrjaði svona skrautlega. Ótrúlegt en satt, ég var þó nokkurn veginn með réttu ráði það sem eftir lifði dagsins, gerði engar gloríur í vinnunni og ekki heldur á Greifanum. Batnandi fólki er best að lifa...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli