miðvikudagur, 22. febrúar 2006

Stiklað á stóru

Það er nú svo skrýtið að af því ég held úti bloggsíðu á annað borð þá finnst mér eins og mér beri skylda til að blogga reglulega. Oftast nær er það ekki neitt vandamál, ég á frekar við ritræpu að stríða heldur en ritstíflu. En svo koma tímabil þegar ég er bara algjörlega andlaus og finnst það ærið verkefni að þurfa að fara á fætur á morgnana og sinna minni vinnu, þó ég þurfi ekki að blogga líka. Fljótlega byrjar þó lítil mjóróma rödd að hvísla: "Já, en Guðný þú verður að blogga, þó ekki væri nema af tillitssemi við lesendur síðunnar". Svo líða dagarnir og röddin verður smám saman sterkari og kröftugri og loks fer hún að hrópa: "Guðný, hvað á þetta eiginlega að þýða, af hverju bloggarðu ekki?". Og ég svara: "En ég hef ekkert að segja, það gerist ekkert markvert." En röddin segir: "Hvaða bull er þetta í þér, þú þarft ekki að hafa neitt að segja. Sýndu bara að það sé lífsmark með þér. Hver veit, kannski þú fáir einhverja hugljómun þegar þú sest fyrir framan tölvuna og fingurnir fara að slá á lyklaborðið." Við þessu á ég ekkert svar nema: "ALLT Í LAGI ÞÁ, ÉG SKAL BLOGGA!"

Stiklur:

* Eldri sonurinn og frumburður föður síns átti 16 ára afmæli þann 17. febrúar. Einhverra hluta vegna þá er sextán ára afmæli alltaf svolítið merkilegt. Því lögðum við áherslu á að hann myndi gera eitthvað í tilefni dagsins (hefur ekki viljað það síðustu þrjú, fjögur árin) - og hann bauð ca. tíu strákum heim í pítsur, gos og nammi á afmælisdeginum en svo vel hittist á að hann var á föstudegi.

*Við þrjú erum hægt og bítandi að sigrast á kvefpestinni sem var að angra okkur. Ég fór m.a. í Heilsuhornið og keypti þar ólífulauf, sólhattsmixtúru og blágrænþörunga til að nota í baráttunni við pestarpúkann. Því miður virðist Andri vera að falla fyrir honum núna svo þessu er ekki alveg lokið enn...

*Við Valur fórum með Ísak á bingó í Lundarskóla í gær. Valur er mikill keppnismaður - var svo lánsamur að fá BINGÓ - og fékk meira að segja verðlaun! Eftir spilið var boðið upp á kaffi og meðlæti sem foreldrarnir komu með. Eini gallinn var sá að það eru 24 börn í bekknum en einungis foreldrar tíu barna mættu, það hefði verið gaman að sjá fleiri.

*Hrefna mín er á fullu að undirbúa umsóknir í danska háskóla - gaman að því. Það verður gaman fyrir hana að komast á fullt í "alvöru nám" eins og Valur orðar það svo skemmtilega.

*Birta og Máni eru hress að venju. Í dag gerðist þó sá fáheyrði atburður að það gleymdist að gefa þeim að borða í morgun. Þegar ég kom heim um fimmleytið í dag fór Birta að mjálma ámátlega og var ég þá fljót að kveikja á perunni og gefa hinum sársvöngu ferfætlingum einhverja næringu.

*Á föstudaginn þarf ég að útvega eina tertu, einn brauðrétt og muffins fyrir árshátíð Lundarskóla en þá eru tíundubekkingar með kaffihlaðborð í fjáröflunarskyni fyrir útskriftarferðina.

*Á föstudaginn verð ég líka með konuklúbb og þarf að græja veitingar handa konunum ;-)

Engin ummæli: