miðvikudagur, 8. febrúar 2006

Vonbrigði

Þegar ég fór suður í byrjun janúar í húsmæðraorlof/innkaupaferð keypti ég mér m.a. hvíta Esprit rúllukragapeysu í Debenhams. Hún er úr blöndu af bómull og einhverju gerviefni sem ég kann ekki að nefna í augnablikinu, afskaplega þægileg að vera í og svolítið sparileg út af hvíta litnum. Það er að segja VAR sparileg. Eftir að hafa farið tvisvar í peysuna datt mér sú vitleysa í hug að þvo hana - stillti vélina á viðkvæman þvott og allt hefði átt að vera í besta lagi - en þegar ég tók peysuna út var hún ekki lengur snjóhvít, heldur með grábláu yfirbragði! Hafði þá blár sokkur legið í vélinni án þess að ég tæki eftir honum - og smitað svona líka út frá sér... Gaman eða hitt þá heldur. Það versta í þessu samhengi er ekki fjárhagslegt tjón, peysan var jú keypt á útsölu og mig minnir að hún hafi kostað 2.500 krónur. Nei, verst er að ég var svo ánægð með hana, hún klæddi mig vel og passaði fullkomlega við svartar (hvít)teinóttar buxur sem ég á. Böhöhö, mig langar nú barasta að fara að gráta......

Engin ummæli: