fimmtudagur, 2. febrúar 2006
Var að ganga heim
úr bænum áðan (ég gekk sem sagt í bæinn og heim aftur, dugleg!) þegar tveir bílar stöðvuðu fyrir mér á gangbraut. Þeir voru að koma hver úr sinni áttinni en það var skrýtin tilviljun að þeir voru báðir hvítir - og ég var í hvítri úlpu. Úr þessu spunnust einhverjar hugleiðingar hjá mér um hvíta litinn og í framhaldinu mundi ég allt í einu eftir hvítu dragtinni sem ég saumaði mér einu sinni fyrir langa löngu fyrir árshátíð á sjúkrahúsinu. Þetta var á þeim tíma sem við Valur vorum að draga okkur saman og yfirlæknirinn á Lyfjadeildinni þar sem ég vann hafði boðið öllu starfsfólkinu heim til sín í kokteil fyrir árshátíðina. Ég hafði sem sagt ákveðið að sauma mér dragt og sat sveitt við saumavélina, nánast þar til ég var sótt. En það var þess virði, bæði var ég sjálf mjög ánægð með mig - og þegar ég kom í partýið sá ég að Valur glennti upp augun. Seinna um kvöldið hrósaði hann mér fyrir það hvað ég væri glæsileg ;-) En blessuð dragtin átti ekki mjög langa lífdaga, tískan gekk fljótt af henni dauðri...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli