Eins og sönnum útsöluóðum Íslendingi sæmir fór ég beinustu leið af flugvellinum í Kringluna á fimmtudeginum - en hvort sem um er að kenna flugþreytu (haha mátti reyna) eða einhverju öðru þá var ég bara ekki í neinu innkaupastuði þann daginn. Ráfaði milli verslana og sá ekkert sem mig langaði í. Var reyndar búin að tína saman einhverjar flíkur til að máta í Next en fékk þá að vita að fyrsta dag útsölu væru mátunarklefarnir lokaðir og þá nennti ég ekki að standa í þessu og skilaði bara fötunum á sinn stað. Í von um að hressast eitthvað keypti ég mér nýpressaðan heilsusafa að drekka í Heilsuhúsinu og varð nógu spræk til að finna á mig sparibuxur í Marc O'Polo en lufsaðist svo bara út úr Kringlunni með skottið á milli lappanna. Velti því fyrir mér hvort ég ætti að hendast í Smáralindina strax en ákvað að fara frekar daginn eftir. Bankaði í staðinn uppá hjá bróður Vals og mágkonu sem búa í Fossvoginum og því stutt að fara. Fékk hjá þeim te og brauð og sat lengi og spjallaði. Að því loknu fór ég til Rósu vinkonu og gestgjafa að Hótel Álfheimum.
Eftir staðgóðan kvöldverð og nætursvefn var ég eins og ný kona og hóf daginn á sundferð í Laugardalslaugina. Lenti næstum í árekstri við konu sem ætlaði í nákvæmlega sömu sturtuna og ég (greinilega ekki bara Akureyringar sem eru vanafastir í sundlauginni...) en hún færði sig treglega í næstu sturtu við hliðina (ég bauð henni mína en hún svaraði því til að það væri svo sem ekkert lífsspursmál fyrir sig að komast alltaf í sömu sturtuna ;-) Eftir sundið fór ég í heimsókn til Gunnu og Matta, tengdaforeldra minna, og fékk hjá þeim morgunkaffi(te) og var þá orðin klár fyrir verslunarferð dagsins.
Ók í Smáralindina og var varla komin inn úr dyrunum í Debenhams þegar ég sá skó sem pössuðu mér fullkomlega og eru góðir bæði spari og eins í vinnunni. Gallabuxur, tvær rúllukragapeysur og spariblússa fylgdu í kjölfarið og ýmislegt fleira mátað án þess að vera keypt. Svo fór ég í Benetton og keypti þar eina peysu og þá fannst mér nú vera komið nóg.
Næst á dagskrá var ferð til Keflavíkur að heimsækja mömmu og Ásgrím og þar fékk ég að sjálfsögðu veitingar og reyndi að hjálpa mömmu í tölvunni. Það hefur vondandi borið einhvern árangur ;-) Það var mjög gaman að hitta þau en um hálf fimm leytið brunaði ég aftur af stað til Reykjavíkur í ausandi rigningu og slagveðri því ég ætlaði að komast í verslunina Kaffiboð fyrir minn kaffi- og tækjasjúka eiginmann. Aksturinn gekk eins og í sögu og ég rataði rétta leið í fyrstu atrennu. Var komin í búðina um hálf sex en losnaði ekki þaðan út fyrr en korter yfir því eigandinn þurfti að rabba svo mikið við mig. Eftir það samtal vissi ég m.a. að langafi hans hefði átt verslun á Akureyri og að haldið hefði verið upp á áttræðisafmæli tengdamóður hans á Holtinu en þjónustan hefði verið hörmuleg... Ég brunaði þarnæst í Kringluna til að kaupa rauðvínsflösku til að taka með mér til Rósu en hún hafði boðið mér í kvöldmat. Eldaði hún alveg frábæran kjúklingarétt með mangó upp úr nýjasta Gestgjafanum og svo sátum við og röbbuðum fram á nótt.
Í gær svaf ég svo til rúmlega tíu en var búin að mæla mér mót við tvær vinkonur mínar, þær Sólrúnu og Hjördísi, á Laugaveginum klukkan eitt. Eftir te og brauð með Rósu skrapp ég í Ikea til að drepa tímann fram til eitt. Fór hraðferð gegnum búðina án þess að kaupa neitt nema tvær "pöddur" sem ég hugsaði að gætu kannski dugað sem kattaleikföng. Ók svo sem leið lá niður á Laugaveg og beint inn í nýtt bílastæðahús sem Sólrún hafði bent mér á. Beið svo eftir þeim inni í versluninni Sautján og það hafði þær afleiðingar að ég kom einum leðurjakka ríkari út aftur! Hann var með 40% afslætti og þannig kostakjör er náttúrulega ekki hægt að láta fram hjá sér fara. Svo röltum við um í bænum og kíktum á útsölurnar en enduðum svo inni á kaffihúsi/veitingastað og fengum okkur beyglur. Það var virkilega gaman að hitta þær stöllur en eins og venjulega leið tíminn alltof hratt og fljótt kominn tími til að fara út á flugvöll.
Heima tók svo minn heittelskaði á móti mér á flugvellinum og eins og alltaf þá er gott að koma aftur heim úr ferðalagi og hitta fjölskylduna. Mikið sem það er nú samt líka gott að komast stundum aðeins í burtu, pústa aðeins og gera eitthvað annað en þetta venjulega ;-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli