föstudagur, 13. ágúst 2004

Margfalt samviskubit

Sit hér með margfalt samviskubit yfir öllu því sem ég ætti að vera að gera - en geri ekki.

1. Ætti að vera að skrifa grein sem ég tók að mér að tjasla saman og á að birtast í 5. ára afmælisblaði Félags kvenna í atvinnurekstri http://www.fka.is Hélt að þetta yrði nú lítið mál og lofaði öllu fögru enda venjulega með ritræpu en svo er þetta að bögglast eitthvað svo ótrúlega mikið fyrir mér. Farin að spá í hvernig stíll henti svona grein best o.s.frv. Best að hugsa sem minnst og skrifa bara...

2. Ætti að hafa farið með Vali í leikfimi í stað þess að sitja heima og slæpast fyrir framan tölvuna. Hef ekki farið í leikfimi í heila viku og er að mygla. En betri siðir verða teknir upp um leið og skólarnir byrja að nýju. Þá verður farið í leikfimi kl.7.45 þrjá morgna í viku, ekkert væl!

3. Ætti að vera byrjuð að taka til dótið hans Ísaks en hann er að fara til Sauðárkróks að keppa á fótboltamóti um helgina. Við foreldrarnir ætlum reyndar að fylgja honum en vera pínu leiðinleg og nota tímann líka eitthvað fyrir okkur sjálf. Ganga á fjall eða fara í smá ferð í Húnavatnssýslu.

4. Ætti a.m.k. að hafa drullast út að ganga úr því ég nennti ekki í leikfimi með bóndanum. Best ég geri það - þá kannski breytist liturinn á samviskunni úr kolsvörtum yfir í steingráan ;0)

P.S. Fékk þá fyrirspurn frá Rósu vinkonu minni hvort öll samskipti okkar hjóna væru komin á rafrænt form - veit ekki alveg hverju ég á að svara - en nei, ætli það sé nú svo slæmt. Þetta er náttúrulega ekki mikið frábrugðið því að senda SMS og það samskiptaform er nú mjög í tísku!

Engin ummæli: