fimmtudagur, 5. ágúst 2004

Hver á að sitja í farþegasætinu?

Las í Mogganum áðan að sérstök lögmál gilda um jeppaeigendur. Séu karl og kona samferða í jeppa þá er það ætíð karlinn sem ekur. Jafnvel þótt konan sé að "keyra" karlinn í vinnuna og ætli svo að hafa jeppann til eigin nota það sem eftir er dagins, þá keyrir karlinn að vinnustaðnum þar sem konan sest síðan í ökumannssætið þegar hann fer út. Að vinnudag loknum sækir frúin bóndann aftur og víkur þá auðmjúklegast aftur í farþegasætið - enda er stjórnun jeppans auðvitað mun betur komin í höndum hins sterkara kyns....

Mér þykir leitt að valda pistlahöfundi Moggans vonbrigðum en við Valur (jeppaeigendur með meiru) fylgjum ekki þessu mynstri og hljótum því að vera undantekningin sem sannar regluna! Hvort sem það er vegna þess gríðarlega jafnræðis sem ríkir með okkur hjónum, frekjunnar í mér eða einhvers annars. Hins vegar verður það að segjast eins og er að eiginmanninum er aldrei fullkomlega rótt þegar hann situr í farþegasætinu, þó treystir hann mér nú þokkalega vel fyrir stýrinu. Nei, honum finnst bara að "aðrir" hljóti að halda að hann sé FULLUR úr því hann leyfi mér að keyra! Hefur honum því ítrekað dottið í hug að hafa bjórflösku í hanskahólfinu sem hann geti tekið upp og þóst vera að drekka úr henni þegar hann er farþegi í jeppanum með mér.

P.S. Það skal tekið fram að þessar athuganir pistlahöfundar Moggans eiga sérstaklega við um jeppa og ökumenn þeirra - ekki fólksbíla. Og nú er fyrst kominn tími til að klóra sér í höfðinu.

2 ummæli:

Halur Húfubólguson sagði...

Þú ættir að lesa mína bloggpunkta en ég er þér sammála í þessu efni sem flestu öðru.

Halur Húfubólguson sagði...

Þetta er bara nokkuð gott og kemur ekki á óvart úr þessari áttinni, áfram lifi hið skrifaða orð og konur sem ökumenn jeppa!