miðvikudagur, 3. apríl 2013

Smá lífsmark ...

Mér tókst að krækja mér í einhverja pesti um páskana, tja eða datt í heiftarlegt gigtarkast, það er ekki alltaf gott að segja hvað er hvað. Beinverkir, höfuðverkur, hálssærindi, ógleði, slappleiki og yfirgengileg þreyta + svefnþörf, öll einkenni flensu nema hiti og hósti. Þetta byrjaði fremur sakleysislega á föstudag og laugardag en ágerðist síðan og ég var langverst seinni part sunnudags og á mánudag. Þá lá ég bara og svaf lungann úr deginum. Enda treysti ég mér ekki í vinnu í gær en svo eftir því sem leið á daginn hresstist ég og var farin að líkjast sjálfri mér um kvöldmatarleytið. Fór í vinnu í morgun og gekk ágætlega. Var reyndar í bókhaldi alla fjóra tímana og orðin býsna lúin að því loknu, en það er nú bara eðlilegt því þetta reynir svo á heilann (minn heila a.m.k.).

En já páskafríið og góða veðrið fór þannig að mestu leyti fram hjá mér. Valur hins vegar náði að fara á svigskíði, gönguskíði og ganga á Súlur svo eitthvað sé nefnt. Auk þess að elda hátíðamat ofan í okkur hin alla dagana.


Það sem uppúr stendur er flugferð með Andra á laugardeginum. Ég var hálf lasin en ákvað að drífa mig samt og sá ekki eftir því. Það er ótrúlega gaman að horfa á landið úr lofti og fjöllin voru svo falleg, alhvít og skínandi hrein í sólinni.

Ég talaði líka við Önnu systur á Skype um páskana og þau voru öll veik, hún, Kjell-Einar og Sigurður, svo ekki var það nú gott.

En já vonandi fer nú heilsan bara uppávið úr þessu. Ég ætla að halda áfram að vera dugleg að fara út að ganga, finn hvað það gerir mér gott. Það er fyrst núna að ég er aftur farin að hafa gaman af því að fara út að ganga, en eftir að ég fékk brjósklosið 2008 og vinstri fóturinn varð svona „latur“ þá fauk ánægjan af gönguferðum út í veður og vind. Get ekki lýst því hvað ég er glöð að finna hana aftur.

2 ummæli:

Anna Sæm sagði...

Gaman að sjá þessa mynd og hinar loftmyndirnar á FB.

Guðný Pálína sagði...

Já það er bara verst hvað það er erfitt að ná góðum loftmyndum úr aftursætinu á flugvél ... ;) Glugginn er ekki stór og þar að auki úr plasti sem er rispað og skítugt. Svo vill það sem er inni í flugvélinni endurkastast á gluggann, þannig að á mörgum myndum eru "aukahlutir". En já þessar myndir sem ég birti á fb voru þær skástu úr ferðinni og öll þessi vandamál sem ég taldi upp hér að ofan sjást varla á þeim myndum :)