sunnudagur, 14. apríl 2013

Göngutúr í blíðviðri á Eyrinni



Laugardagur - frídagur - gott veður úti. Ég úrvinda af þreytu, með verki í augum, kverkaskít, hálfgerðan höfuðverk og bara allsherjar slöpp og sljó. Á sama tíma alveg hrikalega pirruð yfir ástandinu á mér. Langar út í góða veðrið.

Um tvöleytið safna ég mér nógu mikið saman til að fara í snögga sturtu og svo förum við Valur út. Hann segir mér að þetta sé í fyrsta skipti í langan tíma sem við gerum eitthvað saman um helgi. Ég minni hann á að við fórum reyndar á listasýningar og kaffihús einn sunnudag fyrir ekki svo löngu síðan (sem eru reyndar 5 vikur...). Annars hefur hann rétt fyrir sér, við gerum sjaldan eitthvað skemmtilegt saman, þar sem ég er jú í þreytu-hruni allar helgar.

Við veltum okkur samt ekki meira uppúr því að sinni. Röltum bara í rólegheitum um Eyrina hvort með sína myndavél og tökum myndir af því sem á vegi okkar verður. Afslöppuð og í góðu skapi. Þar til mér er orðið kalt og búin með orkukvótann. Á sama tíma klárast rafhlaðan í myndavélinni hans, svo það passar vel að hætta núna. Gerum tilraun til að fara í Pennann/Te og kaffi en þar er allt stappfullt svo við förum bara heim, þar sem sófinn bíður mín enn á ný.

              -------------------------------------------------------------------------------------------

P.S. Forritið sem ég notaði til að gera þetta myndasafn (collage) heitir Photo collage og það er ókeypis á netinu. Ég var að nota það í fyrsta skipti núna en það eru margir spennandi möguleikar í þessu forriti. Hægt að gera boðskort og margt fleira, auk svona myndasafna.


Engin ummæli: