fimmtudagur, 18. apríl 2013

Allt og ekkert

Stundum langar mig að setjast niður og blogga en hef ekkert sérstakt að segja. Það er bara þessi þörf sem ég hef fyrir að skrifa. Eins og það byggist upp einhver þörf sem ég verð að fá útrás fyrir.

Þá væri náttúrulega upplagt að skrifa eins og eina senu eða einn kafla í „sögunni minni“ (þessari sem ég byrjaði að skrifa á námskeiðinu) en mér ætlar að ganga illa að halda áfram að skrifa hana. Það kallast víst framhaldskvíði skilst mér. Eina ráðið við honum er að setjast niður fyrir framan tölvuna og láta vaða - en ég hef ekki enn látið verða af því. Er samt að melta sögupersónurnar með mér, finnst einhvern veginn að ég þurfi að átta mig aðeins betur á þeim áður en lengra er haldið. En ég held að ég verði að lofa sjálfri mér því að gera eitthvað með þetta efni, helst fyrr en síðar.

Annars er fyrirhuguð helgarferð í Þingeyjarsýslu ofarlega í huga mér. Það byggist upp eitthvað stress tengt ferðinni, sem ég þarf að vinda ofan af. Ég er orðin svo óvön því að gera eitthvað með öðrum en Val, og þegar við erum tvö ein á ferð þá er jú hægt að haga hlutunum eftir sínu höfði en það er erfiðara í stórum hópi. Kosturinn er samt sá að ég get þá alltaf dregið mig í hlé inná herbergi ef ég er alveg að gefa upp öndina ;-) Nú svo má alltaf vona að ég verði bara þokkalega hress og kát :-)

Ég hef verið með svona „veikinda-tilfinningu“ alveg síðan um páska en misslæm eftir dögum. Það er klassískt vefjagigtareinkenni, þessi dagamunur. Í gær var ég t.d. ekki með þessa „mér líður eins og ég sé með hita“ tilfinningu, en hún er komin aftur í dag. Einhvern tímann var ég að tala um það við eina vinkonu mína að þetta væri svo skrítin líðan, að upplifa sig eins og með hita, en vera samt hitalaus. Þá sagðist hún alltaf sjá það á augunum í mér því þau verða „glær“ svona eins og hjá fólki með hita. Og það er alveg rétt hjá henni.

Kosturinn við að eiga betri dag í gær, var sá að ég drattaðist loks á fund í ljósmyndaklúbbnum mínum. Hef sleppt a.m.k. síðustu tveimur fundum. Við vorum að spjalla um fyrirhugaða sýningu í menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Þar ætlum við að sýna sömu myndir og við vorum með í safnaðarheimili Akureyrarkirkju, þannig að það er nú ágætt. Líklega mun sýningin opna í kringum mánaðamótin apríl-maí. Svo horfðum við á þátt í seríunni um Ljósmyndakeppni Íslands en í þetta sinn var þemað auglýsingar. Okkur sýndist sitt hvað, bæði um myndir keppendanna og eins umsagnir dómaranna. Mín skoðun er sú að líklega hafa keppendur ekki lesið nógu vel leiðbeiningarnar sem þeir fengu, og eins þá hafa þeir ekki áttað sig nóg vel á því að þegar um auglýsingu er að ræða, þá er það varan sjálf sem er aðalatriðið og mikilvægt að sýna hana í réttum kringumstæðum.

Jamm og jæja, ætli sé ekki best að koma sér út úr húsi og labba einn lítinn hring. Svo er það hádegismatur, sturta og vinna. Í kvöld þarf ég að gera við eina peysu, baka brauð og græja morgunmat til að taka með mér í ferðina.

Til að lífga aðeins uppá allt þetta skrifaða orð þá koma hér nokkrar myndir úr ljósmynda-göngunni okkar Vals frá því um daginn. Það var dálítið áberandi þarna á Eyrinni að bílar/bílhræ og hjólhýsi voru víða sýnileg - og myndirnar þannig lagað séð kannski ekki þær „fallegustu“ en það er líka gaman að sýna hlutina eins og þeir eru. Valur er reyndar miklu betri en ég í þessari tegund ljósmyndunar. Hann hefur alveg sérstakt auga og er næmur á allt þetta venjulega og hversdagslega sem fólk tekur oft ekki eftir, eða tekur a.m.k. sjaldan myndir af.







1 ummæli:

HH sagði...

Mynd nr. 3 er býsna góð!