laugardagur, 2. febrúar 2013

Ljúffengur kínóagrautur (gútenlaus)



Þegar maður (kona) borðar ekki egg, mjólkurvörur eða glúten, þá dregur talsvert úr þeim möguleikum sem eru í boði varðandi morgunmatinn. Ég hef því verið á höttunum eftir nýjum uppskriftum og fann loks eina sem ég prófaði í gærmorgun og er alsæl með. Uppskriftina fann ég á vefsíðu sem heitir The Alkaline Sisters og hér er tengill á upprunalegu uppskriftina.

Það eru reyndar mun fleiri girnilegar uppskriftir á síðunni og alls kyns fróðleikur,  og ekki spillir fyrir að þar eru líka gullfallegar ljósmyndir. En varðandi heitið á síðunni, The Alkaline Sisters, þá eru sífellt fleiri að taka upp þann hugsunarhátt að basískt fæði henti líkamanum best, já eða þá basískt/súrt í hlutföllunum 80/20. Ég hef ekki sett mig ítarlega inn í þessi fræði en Robert O. Young er einn helsti talsmaður þessarar stefnu og hefur m.a. gefið út bókina The PH miracle en hann heldur einnig úti blogginu Articles of Health.

En aftur til þeirra systra. Julie hafði þjáðst af mjög slæmu brjósklosi í baki í 18 mánuði þegar hún áttaði sig á því að hún þyrfti að læknast "innan frá" og ákvað að prófa basískt mataræði. Hún fékk Yvonne systur sína með sér í að prófa þetta en Yvonne hafði átt við offituvandamál að stríða. Það er skemmst frá að segja að heilsufar þeirra systranna gjörbreyttist í kjölfarið og hafa þær fylgt basísku mataræði síðan haustið 2008.

Læt ég þessum langa formála hér með lokið og sný mér að uppskriftinni góðu.

Kínóagrautur
1 bolli kínóa
3 bollar möndlumjólk
1/2 tsk. vanilla
1 tsk. kanill
1/4 tsk. all spice
1/2 bolli rúsínur
1 miðlungs stórt epli, brytjað
stevia eða agave (ef vill)
1/2 bolli saxaðar valhnetur
4 msk. sólblómafræ
1 bolli bláber
Ofaná: Hindber, jarðarber, pecan hnetur, möndlur, hempfræ (eitthvað af þessu)

  • Setjið kínóa, mjólkina, kryddið og rúsínur í pott. Látið sjóða í 5 mín. 
  • Bætið þá eplinu út í og sjóðið í 5-7 mín. í viðbót. 
  • Hrærið í og takið svo pottinn af hellunni og látið jafna sig í 5 mín. Þá ætti grauturinn að hafa dregið í sig allan vökvann. 
  • Ef það er ennþá mikill vökvi, sjóðið í 3-5 mín. í viðbót og takið svo af hellunni og látið hvíla í 5. mín. Passa samt að grauturinn brenni ekki í þessari viðbótarsuðu. 
  • "Sykrið" ef þið viljið með agave eða stevia. 
  • Setjið valhnetur + fræ + ber + smá epli ofaná. Njótið :)

Ég gerði bara hálfa uppskrift, enda bara að elda handa sjálfri mér.
Ég átti ekki rúsínur svo ég notaði nokkrar döðlur í staðinn.
Sleppti líka all spice, veit ekkert hvaða krydd það er.
Sleppti sætuefnum, fannst döðlurnar sæta þetta nóg.
Saxaði möndlur ofaná í staðinn fyrir valhnetur.

Mun pottþétt gera þennan graut oftar!

2 ummæli:

ella sagði...

Hvað er kínóa?

Guðný Pálína sagði...

Kínóa eru fræ sem innihalda mikið prótein og fleiri góð efni, auk þess að vera glútenlaus. Sjá nánar hér : http://www.lifraent.is/Forsida/Vorur/Vara/67_184