miðvikudagur, 20. febrúar 2013

Jæja ... ég verð að reyna að lita bloggið bjartari litum


Hm, þessi mynd er reyndar ekki í björtum litum ... en ég meinti þetta svona „metaphorically speaking“ (og það er ekki séns að ég muni íslenska orðið yfir þetta núna í augnablikinu).

Í hvert sinn sem ég hef fengið útrás hérna á blogginu og leyft mér að væla aðeins, þá fæ ég smá samviskubit. Ekkert gríðarlega stórt, bara svona pínu. Finnst að ég eigi bara að þegja í stað þess að segja eins og er. Hef áhyggjur af því að fólk fari að hafa áhyggjur af mér.

Staðreyndin er bara sú að maður verður alltof sjálfhverfur af því að vera aldrei „í lagi“, það er endalaus naflaskoðun í gangi, og endalausar spurningar ...
- Af hverju er ég alltaf svona ómöguleg?
- Hvað er ég að gera vitlaust?
- Ætli ég sé að borða eitthvað sem fer illa í mig?
- Er ég að gera of mikið?
- Er ég að gera of lítið?
- Skyldi mér aldrei takast að finna hið gullna jafnvægi?
Sem sagt, sjálfhverfa frá A til Ö.

Ég geri mér líka grein fyrir því að t.d. pistillinn í gær hefur ábyggilega verið hálf þunglyndislegur - samt er ég ekki þunglynd. Bara svo innilega leið á þessu ástandi mínu. Alltaf þegar mér finnst ég vera á réttri leið (t.d. fyrst þegar ég breytti mataræðinu og svo þegar ég var búin að vera á Kristnesi) þá fæ ég bakslag og þarf að horfast í augu við það „þetta“ var ekki hin endanlega lausn. Kannski ekki skrítið því hún er ábyggilega ekki til. Engin ein lausn. Það þarf sjálfsagt samspil margra þátta til.

Þegar ég skoða það sem ég hef áður skrifað hjá mér um einkenni sem eru að plaga mig, þá sé ég að það er margt orðið betra. Það er bara alltaf þetta eina risastóra atriði - ÞREYTAN - sem plagar mig langmest og gengur erfiðast að laga.

Og vá hvað mér mistókst að vera bjartsýn í þessum pistli. Engir bjartari litir í dag ... Verður vonandi á morgun ;)

Annars var svo fallegt úti þegar ég var búin að vinna í dag. Það hefði verið upplagt að sækja myndavélina og keyra t.d. út á Gáseyri því birtan var svo falleg yfir Kaldbak. Og jú jú, það hvarflaði alveg að mér að gera það. Sófinn kallaði bara svo hátt á mig (já og Birta gamla líka), svo í stað þess að fara út að taka myndir þá sofnuðum við Birta báðar á sófanum og sváfum vært í einn og hálfan tíma. Þá var líka orðið of seint að fara út með myndavélina.

Í staðinn labbaði ég minn venjulega hring um hverfið. Og smellti af einni mynd á farsímann. Svo eldaði ég mér súpu og sauð pylsur handa Ísaki, þar sem Valur er á Sauðárkróki.

Einmitt núna er svo fundur hjá ÁLFkonum og mig langar að fara ... en samt ekki.  Ég er alveg hreint ótrúlega löt að fara út úr húsi á kvöldin og svo er ég syfjuð ... haha sem er bara fyndið í ljósi þess að ég svaf vel í alla nótt + lagði mig í dag.

Hey! Ég get sagt eitt jákvætt! Anna systir er að koma til landsins núna í lok febrúar og ég stefni að því að skreppa suður og hitta hana. Þarf bara að panta mér flug og redda mér gistingu.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Endilega að halda áfram að segja eins og er. Finnst þú nú vera að gera meira en þér sjálfri finnst, ert að vinna, ferð í gönguferðir, ert á námskeiði, þetta er nú bara þó nokkuð gott, þó ég skilji að þig geti langað til að geta gert meira. Bestu kveðjur, Þórdís.

Guðný Pálína sagði...

Takk Þórdís fyrir falleg orð.

Nafnlaus sagði...

Ætti að vera nóg pláss hjá ÞP og Andra!
HH