laugardagur, 22. september 2012

Þema dagsins eru blendnar tilfinningar



sem og gærdagsins. Í gær ætlaði ég jú að drífa mig í ljósmyndaferð með ÁLFkonum, og var langt komin með að pakka dótinu mínu og skipuleggja það sem að mér snéri í sambandi við ferðina.

En þegar ég vaknaði í gærmorgun var kominn nýr skipstjóri í brúna ... Það er að segja, vefjagigtin hafði læðst aftan að mér í skjóli nætur og réði nú lögum og lofum. Mér leið eins og ég væri að fá flensu (dæmigert gigtarkast lýsir sér þannig), verkjaði í allan skrokkinn og var þung og sljó yfir höfðinu. Það hafði nú reyndar verið byrjað daginn áður, enda vissi ég varla hvort ég var að koma eða fara í vinnunni á fimmtudaginn, var svo ferlega utan við mig eitthvað.

Jahá, þarna var ég sem sagt lent í því sama vandamáli og ég hafði óttast. Búin að láta vita að ég kæmi í ferðina en treysti mér svo ekki þegar á hólminn var komið. Ég fór í vinnuna og var allan tímann að velta því fyrir mér hvað ég ætti að gera í málinu. Ætti ég að láta eins og ekkert hefði í skorist og fara af stað? Það var vissulega möguleiki en það sem stóð í mér var að þurfa að keyra í rúma 3 tíma svona slöpp. Ég vissi þrátt fyrir að geta hugsanlega haldið mér gangandi í þennan tíma með því að drekka kaffi og borða eitthvað sætt, þá væri það ekki gáfulegt.

Svo hresstist ég eitthvað örlítið og fékk þá vott af bjartsýni. Jú jú, bara ef ég færi heim eftir vinnu og hvíldi mig aðeins, þá gæti ég ábyggilega lagt af stað seinna um daginn. Ég hafði samið um það við Sunnu að mæta fyrr í vinnuna svo ég gæti farið í ferðina og hún kom korter í eitt. Þá byrjaði ég á því að keyra Ísak í Ökugerði (liður í ökunáminu hans) en fór svo heim og fékk mér að borða. Eftir smá stund var ég aftur orðin slöpp og þreytt, og eftir að hafa "lagst undir feld" var endanleg niðurstaða sú að fara ekki í ferðina.

Til að byrja með leið mér vel með að hafa tekið skynsamlega ákvörðun. Sat og prjónaði í smá stund og var bara nokkuð sátt við sjálfa mig. Ekki leið þó á löngu þar til niðurrifs-seggurinn var sestur að á öxlinni á mér, og var nú aldeilis í essinu sínu. Hér kemur smá brotabrot af öllu því neikvæða sem karlinn sá hafði að segja:

  • Hvað ætli stelpurnar haldi eiginlega um mig? 
  • Það eru fleiri en ég í hópnum með vefjagigt og engin þeirra hætti við að fara. Af hverju fór ég ekki bara þó ég væri slöpp?
  • Af hverju er ég svona mikill aumingi? 
  • Ætli mér hafi hreinlega tekist að stressa mig upp í gigtarkast?
  • Ég var nú meiri asninn að halda að þetta gengi upp. Ætti nú að vita hvernig staðan er yfirleitt á mér í vikulokin. 
  • Af hverju skipulagði ég mig ekki betur? Var búin að gera alltof margt í þessari viku fyrir utan vinnuna, s.s. fara í leikfimi x 2 og í sund x2, fara í sjúkraþjálfun, til tannlæknis, á hárgreiðslustofu, á fund í ljósmyndaklúbbnum. Hefði ég hugsað rökrétt þá hefði ég vitað að þetta myndi aldrei ganga upp. 
  • Það er svo ótrúlega fúlt að vera hluti af félagsskap en geta ekki tekið fullan þátt í því sem gert er.
  • Nú missi ég af öllu fjörinu, því ég veit að það verður hlegið út í eitt allan tímann.

Bla, bla, bla og svo framvegis. Ég þekki hr. Niðurrifssegg svo alltof vel, þó ekki séum við sérstakir vinir. Og auðvitað ætti ég hreint ekkert að vera að hleypa honum inn þegar hann kemur í heimsókn. Það er bara erfitt því vaninn er svo sterkur.

Mergurinn málsins er sá að ég dett alltaf í að finnast ég vera ábyrg fyrir mínu ástandi. Það er að segja, mér finnst heilsufar mitt á einhvern hátt vera mér að kenna. Að ég eigi að geta gert eitthvað til að bæta úr því (NB! ég er jú endalaust að reyna að bæta úr því, það er ekki eins og ég liggi bara aðgerðalaus á bakinu og bíði eftir kraftaverki).

Og af því mér tekst ekki að "hrista þetta af mér" (sem er náttúrulega fáránleg krafa) þá finnst mér ég vera að bregðast öllum í kringum mig. Fyrst og fremst eiginmanni og fjölskyldu, en líka Sunnu meðeiganda mínum í P&P, vinkonum mínum, stelpunum í ljósmyndaklúbbnum o.s.frv.

Þetta eru allt saman órökréttar hugsanir og tilfinningar - og ég veit það - en það breytir því ekki að þær eru þarna. Hjálplegar eru þær ekki, en það hjálpar samt að sjá þær svart á hvítu. Svona eitthvað í þá áttina að ef þú þekkir óvininn þá er auðveldara að finna leið til að sigra hann.

Niðurstaðan er sú að ég gerði það sem ég taldi réttast í stöðunni, var heima, þó það væri erfið ákvörðun að taka, og mér þætti leiðinlegt að missa af öllu fjörinu. Þá verð ég líka að standa með sjálfri mér og hugsa um jákvæðu hliðarnar á því að vera heima, í þess að missa mig í brjálaða sjálfsgagnrýni með eftirfylgjandi sjálfsvorkunn.

P.S. Ég nota bloggið til að ná utan um óreiðuna í huga mér og líður alltaf betur á eftir. Stundum gleymi ég því samt að það eru fleiri en ég sem lesa þetta. Vona samt að það geri meira gagn en ógagn fyrir mína "vesalings" lesendur ;-)



4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Dapurt, en rétt ákvörðun,
HH

Unknown sagði...

Elsku mamma,

Finnst þú sýna mikið hugrekki að deila þínum innstu hugsunum með lesendum. Held að margir hafa hugsanir á þessu braut en þora ekki að segja þær upphátt því þeir eru hræddir um að vera dæmdir - af sjálfum sér og öðrum.
Það krefst líka mikillar sjálfsþekkingar að geta tekið leiðinlegar ákvarðanir sem eru samt réttar...
Er s.s. að reyna að hrósa þér ;)

Áhugavert TED talk: The power of vulnerability.

Knús þín Hrefna

Guðný Pálína sagði...

Þakka þér fyrir elsku Hrefna mín, í fyrsta lagi fyrir að kommentera hjá mömmu gömlu og eins fyrir hrósið. Knús tilbaka :*

Guðný Pálína sagði...

HH fær einnig prik fyrir að kommentera hjá frúnni, enda var hann ekki síður miður sín yfir því að hún komst ekki í ferðina.