sunnudagur, 16. september 2012

Fatapælingar

Fatakaup hafa aldrei verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér, en samt hef ég gaman af því að klæða mig smekklega. Já eða reyna að vera smekkleg ... það er nú kannski ekki alltaf sem það tekst. Stundum koma tímabil sem ég nenni engan veginn að hugsa um/ákveða í hvaða fötum ég á að vera og gríp nánast það sem hendi er næst. Yfirleitt velti ég því þó aðeins fyrir mér og reyni að velja föt sem klæða mig vel og passa saman. Mér finnst líka gaman að því að fara í gegnum fötin mín og raða þeim saman uppá nýtt, þannig að útkoman verði "nýtt dress" þó svo ég hafi ekki keypt neitt nýtt.

Megnið af fötunum mínum er reyndar keypt á útsölu, eða með afslætti. Ég hef einhvern veginn ekki samvisku til að kaupa föt á fullu verði, nema þá endrum og sinnum. Föt eru dýr og kannski er ég hrædd um að eyða peningum í eitthvað sem ég muni ekki nota. Tja, eða þá að ég er bara svona hagsýn húsmóðir ;) Að minnsta kosti þá er ég alltaf sérlega ánægð þegar ég get raðað saman einhverju sem mér finnst vera flott, án þess að það hafi kostað mig heila formúu.

Þetta með að raða fötum saman getur verið svolítið púsluspil finnst mér. Sérstaklega þar sem ég fylgist ekki sérlega vel með tískunni. Ég er löngu hætt að kaupa tískublöð og mér finnst líka einstaklega leiðinlegt að kaupa föt sem "allir" eru í þá stundina. Það er að segja, við Íslendingar sýnum svo mikla hjarðhegðun á stundum, að ef eitthvað trend verður vinsælt þá eru bókstaflega allar konur komnar í þess konar plagg innan tíðar. En auðvitað kaupi ég jú fötin mín í sömu verslunum og allir aðrir og megnið af tímanum er ég afskaplega venjuleg í útliti, þó stundum hafi ég gaman af því að sprella aðeins. Svona eins og í gær þegar ég mætti í vinnuna í doppóttum kjól og eldrauðum sokkabuxum.

Núna undanfarið hef ég leitað á náðir internetsins við að finna fatasamsetningar og liti sem höfða til mín. Þar kemur Pinterest sterkast inn en mér finnst það ótrúlega sniðug síða. Þar er hægt að "klippa út" myndir af öllu mögulegu sem maður rekst á á internetinu, og "líma" á einskonar töflu, sem geymir myndirnar. Svona eins og rafræn úrklippubók sem maður getur svo endalaust bætt inn í og flett upp í til að fá hugmyndir.

Svo rakst ég líka á skemmtilegt tískublogg um daginn. Konan sem skrifar bloggið kallar sig J og býr í Flórída í Bandaríkjunum, sem er eini gallinn því veðurfarið þar er jú býsna frábrugðið veðurfarinu hér hjá okkur, og þar af leiðandi verður fatastíllinn aðeins frábrugðinn. En markmið hennar er að brúa bilið milli ljósmyndanna sem tískutímaritin sýna, og hinnar venjulegu konu sem vill klæða sig í samræmi við tískuna. Hún fær innblástur úr tímaritum og notar þær hugmyndir til að setja saman klæðnað sem er á færi allra að kaupa. Þetta er hennar persónulega blogg og hún sýnir myndir af sjálfri sér + oft á tíðum upprunalegu tískumyndina sem gaf henni hugmyndina.

Ég rændi nokkrum myndum af facebook síðu hennar J. Sem er kannski ekki fallegt að gera en hlýtur að sleppa fyrir horn, þar sem ég er eiginlega að kynna bloggsíðuna, og vísa þar að auki í það hvert myndirnar eru sóttar.


Hér er dæmi um fyrirmynd og svo útfærslan hennar J. Þess má geta að hún leggur áherslu á að gera skynsamleg fatakaup. Kaupir ekki rándýran hátískufatnað og bíður gjarnan eftir því að fatnaður sem hún ágirnist fari á útsölu.


Hér má sjá hennar útfærslur á því hvernig er hægt að klæðast röndóttum bol/peysu á marga mismunandi vegu.

Það er hægt að finna skrilljón tískublogg á netinu ef fólk hefur áhuga á. Mér finnst þetta samt standa uppúr vegna þess að þetta eru föt sem ég gæti hugsað mér að ganga í (megnið af þeim alla vega) og þar að auki gefur J mörg góð ráð sem allar áhugasamar konur ættu að geta nýtt sér.

2 ummæli:

Harpa J sagði...

Mér finnst pinterest mjög skemmtileg síða.

Smá ráð - ef þú hefur áhyggjur af því að birta myndir af öðrum síðum, er minnsta mál í heimi að biðja um leyfi. Oftast er tengill í netfang einhversstaðar á síðunni. Ég hef oft gert þetta og aldrei fengið nei.

NB, ég er EKKI að gagnrýna birtinguna :-)

Guðný Pálína sagði...

Takk fyrir ábendinguna Harpa :) Mér hafði einmitt dottið í hug að senda henni póst, bara svona til að vera með allt mitt á hreinu. Aðhyllist ekki sjálf að "fá lánaðar" myndir annars staðar frá nema með leyfi. Þú hefur lesið það út úr textanum hjá mér geri ég ráð fyrir ;)