sunnudagur, 30. september 2012

Kominn ferðahugur í frúna


Já það styttist í Danmerkurferð og ég byrjuð að skrifa hjá mér hvað ég ætla að taka með mér. Erindi ferðarinnar er að fara í brúðkaupsveislu, en Palli bróðir minn er að fara að giftast henni Sanne sinni laugardaginn 6. október. Þau búa á Jótlandi og það er 3ja tíma lestarferð frá Kaupmannahöfn. Í Köben býr svo auðvitað dóttir mín kær og auðvitað verður hún heimsótt í leiðinni. Plús að hún kemur líka í brúðkaupið. Anna systir og Kjell-Einar koma líka frá Osló, svo það verður aldeilis gaman að hitta alla þessa fjölskyldumeðlimi mína sem búa erlendis.

Mér finnst alltaf jafn flókið að ákveða hvaða föt ég á að taka með mér í ferðalög. Það endar yfirleitt með því að ég er annað hvort með of lítið eða of mikið, eða að fötin sem ég er með passa ekki við veðrið á staðnum. Það er alveg þokkaleg veðurspá í Danmörku þessa daga og því ætti ekki að vera þörf á vetrarfatnaði. En samt fer ég að hugsa... Hm, ætti ég nú ekki að vera með vetrarkápuna til öryggis? Jú ég þarf nú hvort sem er að vera í henni á ferðalaginu innanlands. En hvað með skó, hvaða skó á ég að taka? Leðurstígvél, lága skó, spariskó... Hvaða föt á ég sem passa fyrir ca. 12 stiga hita, en eru samt ekki sumarföt?

Hehe, já þetta er bilun, ég veit það. Og NB! ástæðan er ekki sú að ég eigi svo mikið af fötum. Þetta er bara spurning með að ákveða í hvaða fötum ég ætla að vera þarna úti, og standa við það. Fara ekki að henda þessu og hinu ofan í töskuna á síðustu stundu, bara svona til að vera við öllu búin.

Svo er aldrei að vita nema ég versli eitthvað smávegis. Um daginn sagði ég frá því hér á blogginu að ég kaupi flest mín föt á útsölum eða með afslætti. Undantekningin frá þeirri reglu er þegar ég kaupi eitthvað í "ódýrari" verslunum erlendis s.s. H&M, Lindex, eða álíka búðum.

Jæja, ætli þetta sé ekki að verða nóg blaður um allt og ekkert. Ég gæti nú montað mig af því að hafa farið í hjóltúr í morgun, þrátt fyrir að hafa verið býsna lúin. Mér finnst eins og úthaldið hjá mér sé að skána töluvert þessa dagana. Hm, eða þannig. Var varla búin að sleppa þessari hugsun þegar ég mundi eftir því að ég þurfti nú að stoppa í hjóltúrnum (eftir að hafa hjólað eingöngu á jafnsléttu og niður brekku) af því ég var komin með svo mikinn hjartslátt. En svo hjólaði ég nú samt upp eina (fremur aflíðandi) brekku án þess að vera alveg að drepast, svo það var nú jákvætt.

Það var eiginlega alveg dásamlegt að vera úti að hjóla á sunnudagsmorgni. Allt var svo kyrrt og hljótt og það var hressandi haustkul í loftinu.

Hið sama mátti segja í gærmorgun. Þá fór ég í ljósmyndarölt í kirkjugarðinum.  Sólin skein og ég var þarna alein, rölti um og smellti af myndum þegar ég sá einhver myndefni. Tja alveg þangað til mér var orðið ískalt, því hitastigið var nú bara ein gráða þarna um níuleytið.

Hér má sjá hvernig umhorfs var í kirkjugarðinum í gærmorgun. Haustið í algleymingi.









Engin ummæli: