þriðjudagur, 25. september 2012

Prufa



Ég er að prófa að flytja myndir beint úr ljósmyndaforritinu Lightroom, yfir á bloggið mitt. Sýnist það vera að takast ágætlega. Hm, eða ekki. Það er ekki hægt að smella á myndina til að stækka hana. (Jú núna, ég er búin að laga það).

Það er annars alveg stórfurðulegt hvað ég get verið misjafnlega spræk á einum og sama deginum. Ég hef verið óttalega slöpp alveg síðan á föstudaginn síðasta, og í morgun þegar ég vaknaði leið mér herfilega illa. Ákvað samt að fara í sund, af því mér finnst gott að hitta fólkið í sundinu og byrja daginn vel. Synti hins vegar bara 6 eða 8 ferðir og lét það gott heita. Fór heim og fékk mér morgunmat en var svo slöpp og þreytt að mig langaði mest að leggja mig þarna á milli hálf tíu og tíu. Lét það ekki eftir mér, heldur tók úr uppþvottavélinni og ryksugaði gólfið. Fór svo í vinnuna.

Í vinnunni var ég fyrstu tvo tímana alveg hreint skelfilega drusluleg. Leið eins og ég væri veik og þoldi ekki andlitið sem mætti mér í speglinum þegar ég fór á klósettið. Grá í framan og veikluleg eitthvað. Jæja, svo kom vinkona mín í heimsókn til mín í vinnuna og við spjölluðum aðeins og síðan borðaði ég kjúklingasúpu sem ég var með í nesti. Það voru fáir viðskiptavinir á ferli (dæmigerður september) en ég náði að vinna góðan slurk í bókhaldinu, þrátt fyrir slappleika. Svo um eittleytið fann ég að ég var eitthvað að hressast og þráði ekki lengur allra heitast að komast heim í rúm. Var í vinnunni til að verða þrjú og var þá svo hress þegar ég kom heim, að eftir að hafa borðað berjahristing, dreif ég mig út með myndavélina.

Í Lystigarðinum smellti ég af nokkrum misgóðum myndum. Þessi sem fylgir pistlinum er ein sú skásta af þeim. Hlustaði á fuglana syngja og náði að slaka ágætlega á í smá stund. Var voða glöð með að líða betur.

Nú er bara að vona að ég haldi áfram að hressast. Það væri ekki verra, þar sem ég er jú að fara til Danmerkur í næstu viku ;-)

Engin ummæli: