fimmtudagur, 20. september 2012

Mér var ekki alveg rótt um daginn

þegar ég "fékk lánaðar" myndir af blogginu hennar J. án þess að biðja um leyfi. Svo eftir að hafa birt myndirnar, þá skrifaði ég henni og bað formlega um leyfi. Eftir tvo daga fékk ég eftirfarandi svar:

Guðný,
Thank you so much for asking permission! This is totally fine, and you are sweet to ask, and sweet to give me a shout-out on your blog!
Thank you again !!
J.

Svo þá get ég hætt að hafa áhyggjur af því :-) Sem er eins gott því ég sé sjálfri mér alveg hreint fyrir nægum áhyggju-verkefnum þessa dagana. Þar kemur nú eiginlega vel á vondan, því ég hef stundum í gegnum tíðina verið að skjóta á dóttur mína fyrir að hafa áhyggjur af öllu mögulegu og ómögulegu, langt fram í tímann. Hvar skyldi hún hafa lært þetta...? Hm... 

En já ég fór á ÁLFkonufund í gærkvöldi þar sem ræða átti ferðina fyrirhuguðu. Ég segi ræða "átti" því flest annað var nú rætt heldur en ferðin góða. Að minnsta kosti framan af. Þegar þessi hópur kvenna kemur saman þá er bullað út í hið óendanlega - og hlegið út í eitt - sem er bara dásamlegt!  Kannski hafa þær tekið sig á og rætt ferðina alveg í tætlur, eftir að ég var farin ;o) Ég var sem sagt fyrst til að fara heim (eins og venjulega) því tankurinn var orðinn alveg tómur og ég ætlaði að vera voða gáfuleg og fara snemma að sofa. 

Mér bara gekk alveg herfilega illa að sofna. Var endalaust að hugsa um ferðina og mikla þetta fyrir mér allt saman. Samt er ég búin að ákveða að vera á eigin bíl (sem er fínt, en þá missi ég reyndar af því að vera með þeim í fjörinu á leiðinni, því þær verða allar hinar saman í bílaleigubíl). Svo fer ég bara heim á sunnudagsmorgni þegar þær hinar bruna í Stykkishólm. Það verður ábyggilega gaman en mig grunar að sunnudagurinn geti orðið býsna langur hjá þeim.

Svo velti ég því fyrir mér hvort ég ætti kannski frekar að keyra með þeim í Borgarfjörðinn og taka  strætó aftur norður í land á sunnudeginum. Kannaði málið og sá að strætó er bara svo agalega lengi á leiðinni. Það tekur 4 klukkutíma og 45 mínútur að keyra frá Borgarnesi til Akureyrar. Meðal annars vegna þess að það er farið til Sauðárkróks. Niðurstaðan er því sú að ég mun bara vera sjálf á bíl.

Þá ég bara eftir að skipuleggja mataræðið mitt í ferðinni. Það verður elduð sameiginleg máltíð og ég á eftir að sjá hvort ég mun geta borðað matinn sem verður á boðstólum, en geri hins vegar engar kröfur um það. Valur stakk uppá því í gær að ég gæti tekið með mér súpu og ef til vill eitthvað fleira s.s. kjötbollur, svo það ætti nú að vera hið besta mál. Svo græja ég morgungraut úr Chia fræjum og tek með mér frækexið mitt góða og álegg. 

Og að lokum, þá eru þær svo æstar í að leggja snemma af stað, að mér skilst að brottför eigi að vera kl. 13 en ég á að vera að vinna til kl. 14. Það svo sem skiptir kannski ekki máli fyrir mig að leggja af stað á sama tíma og þær, ég þarf ekkert endilega að vera í samfloti. Kannski er það meira að segja bara leiðinlegt að vera ein í bíl með þær 12 í stuði í rútu fyrir framan mig, hehe ;-)

En já, ætli mér hafi ekki tekist að blogga burt stressið sem var að fara með mig í sambandi við þessa blessaða ferð. Ég vaknaði sem sagt í morgun með stresshnút í maganum og vissi ekkert hvort ég var að koma eða fara. Var efins um það hvort ég ætti að drífa mig í leikfimi, því ég var hálf illa sofin, en fór svo í leikfimina og leið að sjálfsögðu betur á eftir. Þetta er sama vefjagigtar-leikfimin og ég var í í fyrravetur og mjög róleg og fín leikfimi sem endar með slökun. Eini gallinn er sá að maður kemur geispandi og gapandi út úr tímanum (eða ég geri það) því ég verð svo þreytt eftir slökunina. Sem ég veit þó að ég hef mjög gott af.

Og nú læt ég þessu maraþon-blaður-bloggi lokið í bili.

P.S. Ég vildi samt óska að það væri ekki spáð rigningu í Borgarfirðinum alla helgina...

Engin ummæli: