þriðjudagur, 9. febrúar 2010

Stolin mynd frá Val


Yoga on ice?, originally uploaded by Guðný Pálína.

Þetta er úti á Gáseyri en þangað fórum við á laugardaginn, þrátt fyrir slappleika frúarinnar, sem var töluverður þennan dag. Ég hélt að ég myndi kannski hressast við að vera úti í súrefninu en það virkaði ekki í þetta skiptið. Samt alltaf gott að vera úti.

Á sunnudagsmorguninn hittumst við gömlu skátasysturnar í annað sinn í vetur. Í þetta skiptið náði Rósa sem betur fer að vera með okkur, enda var hennar sárt saknað síðast þegar hún var veðurteppt í höfuðborginni. Við vorum hér heima hjá mér og hver og ein tók með eitthvað smávegis á morgunverðar/hádegisverðarborðið.

Að öðru leyti er lítið að frétta. Ég hef verið löt að fara í sund á morgnana það sem af er ári og eftir því hefur verið tekið. En ég hef aðeins farið í ræktina í staðinn. Það er ágætt að breyta aðeins til.

Jú eitt er að frétta. Ég er komin með forláta rafmagns-hitateppi í rúmið mitt, nokkuð sem er algjör lúxus, svo ekki sé meira sagt. Hitapokinn sem ég hef verið með til fóta lagði upp laupana og þegar ég fór á stúfana til að kaupa nýjan poka, sá ég að hægt var að kaupa heilt teppi fyrir tvöfalda þá upphæð sem nýr poki kostaði. Þannig að ég skellti mér á teppið, því mér er jú ekki bara kalt á tánum þegar ég fer í háttinn. Við höfum gluggann yfirleitt opinn og það þýðir bara eitt þegar það er frost úti. Að rúmið verður ískalt. Og þar sem mér er nú yfirleitt alltaf kalt þá er ekkert sérlega notalegt að fara uppí ískalt rúm. En það verður nú ekki aldeilis vandamál hér eftir :)

Engin ummæli: